Dagsetning Tilvísun
17. ágúst 1990 124/1990
Virðisaukaskattur af fótaaðgerðum.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 6. apríl sl., þar sem fram koma sjónarmið félagsins um virðisaukaskatt á þjónustu fótafræðinga.
Samkvæmt 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga er „eiginleg heilbrigðisþjónusta“ undanþegin virðisaukaskatti. Við mat þess hvaða þjónusta falli undir ákvæðið hefur ríkisskattstjóri miðað við að þjónusta verði að uppfylla eftirtalin skilyrði:
1. Um sé að ræða þjónustu aðila sem fellur undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál.
2. Almennt sé þjónusta
a) veitt einstaklingum á grundvelli tilvísunar frá lækni
og/eða
b) hún greidd af Tryggingastofnun ríkisins eða sjúkrasamlagi að hluta eða að fullu.
Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum munu þjónusta félagsmanna yðar ekki uppfylla þessi skilyrði.
Í þessu sambandi vill ríkisskattstjóri vekja athygli yðar á hjálögðu bréfi fjármálaráðuneytisins til F, dags. 19. mars sl. Þar kemur fram að ekki er unnt að fella starfsemi fótaaðgerðafræðinga undir undanþáguákvæði laga um virðisaukaskatt á grundvelli tillögu landlæknisembættisins til heilbrigðisráðherra um að stéttin verði löggilt heilbrigðisstétt. Það er mat ríkisskattstjóra að hið sama eigi við um starfsemi fótafræðinga.
Samkvæmt framansögðu ber fótafræðingum að innheimta og skila virðisaukaskatti fyrir veitta þjónustu. Þeir félagsmenn yðar sem ekki hafa þegar verið teknir á virðisaukaskattsskrá þurfa að snúa sér til viðkomandi skattstjóra og tilkynna honum um starfsemi sína
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson