Dagsetning Tilvísun
30. september 1992 427/92
Virðisaukaskattur af fréttabréfi
Með bréfi, dags.17. ágúst sl., er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af auglýsingum sem birtar eru í fréttabréfi samtakanna og hvernig fara skuli með virðisaukaskatt af prentkostnaði og frágangi þess. Tekjur af auglýsingum voru mun lægri en kostnaður við prentun og frágang með virðisaukaskatti.
Eins og fram kemur í leiðbeiningum ríkisskattstjóra, um meðferð virðisaukaskatts af útgáfustarfsemi frá 11. júní 1991, er útgáfustarfsemi félagasamtaka almennt ekki skráningarskyld ef sölutekjur og tekjur af auglýsingum eru lægri en útgáfukostnaður, sem keyptur er með virðisaukaskatti. Þeir sem ekki eru skráningarskyldir innheimta hvorki virðisaukaskatt af sölu sinni, t.d. auglýsingum né hafa rétt til innskatts af aðföngum. Þeir eru utan virðisaukaskattskerfisins og bera sjálfir þann virðisaukaskatt sem þeir greiða vegna aðfanga sinna, þ.á.m. prentkostnað.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkiskattstjóra
Vala Valtýsdóttir.