Dagsetning Tilvísun
23. febrúar 1996 720/96
Virðisaukaskattur af geymslugjöldum
Vísað er til bréfs yðar, dags. 20. desember 1995, þar sem spurst er fyrir um hvort innheimta afurðastöðva á svokölluðum “geymslugjöldum” sé virðisaukaskattsskyld.
Bréfi yðar fylgdi einnig ljósrit af fyrirspurnarbréfi yðar til landbúnaðarráðuneytisins þar sem þér óskið upplýsinga um, í hverju greiðslurnar séu fólgnar og hvernig þær eru út reiknaðar, svo og ljósrit af svari ráðuneytisins
Í svari landbúnaðarráðuneytisins kemur fram að framleiðsluráð landbúnaðarins annist móttöku og umsjón innkominna reikninga frá sláturleyfishöfum, framsendi þá eftir endurskoðun landbúnaðarráðuneytinu, sem annast greiðslu þeirra. Ljóst er að eigendur kjötsins greiða ekki fyrir geymslu þess, heldur landbúnaðarráðuneytið. Líta verður svo á, að greiðsla landbúnaðarráðuneytisins sé styrkur til afurðastöðvanna. Þar sem einskis afgjalds er krafist fyrir þann styrk ber ekki að innheimta virðisaukaskatt af honum.
Með vísan til framanritaðs og 1. tölul. 3. gr. laga nr. 114/1990, um Útflutningsráð Íslands sbr. lög nr. 122/1993, mynda tekjur þessar ekki stofn til útreiknings markaðsgjalds hjá afurðastöðvum.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir