Dagsetning Tilvísun
1. júní 1994 635/94
Virðisaukaskattur af hannyrðum í smáum stíl.
Vísað er til bréfs yðar dags. 16. febrúar s.l. þar sem fjallað er um mismun á innheimtu virðisaukaskatts á hannyrðum í smáum stíl. Í bréfinu segir m.a.:
“Nú er það svo að það liggur fyrir að verulegur munur er á samkeppnisstöðu fólks til sveita og þess sem býr í þéttbýli hvað varðar álagningu VSK á söluvöru sína. Kona sem er atvinnulaus og býr í þéttbýli þarf ekki að leggja VSK á framleiðslu sína, svo fremi að hún selji undir ákveðnu hámarki ( um 190.000 kr.). Ekki skiptir máli í þessu sambandi hvort hún sé t.d. gift vörubílstjóra eða atvinnurekanda af öðru tagi. Sveitakona þarf hins vegar að leggja VSK ofan á söluvöru sína, þar sem hún er skráð aðili að búrekstrinum, jafnvel þótt búið sé það lítið að hún hafi ekki atvinnu af því.
Hér virðist því vera á ferðinni mismunun milli einstaklinga, eftir stöðu þess í þjóðfélaginu. Ég óska álits embættisins á þessu atriði svo og ábendingum um hvort hægt sé að leiðrétta þessa mismunun á einhvern hátt.”
Samkvæmt 3. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt með síðari breytingum, eru þeir sem selja virðisaukaskattsskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en kr. 100.000 á ári, undanþegnir skattskyldu samkvæmt lögunum. Fjárhæðin breytist 1. janúar ár hvert í samræmi við byggingarvísitölu. Frá 1. janúar 1994 er hún kr. 190.900. Við mat á því hvort aðili sé undanþeginn skattskyldu á grundvelli þessa ákvæðis ber að líta á heildarsölu hans á skattskyldum vörum og þjónustu. Ef aðili er með starfsemi í mörgum atvinnugreinum er það samtals skattskyld velta í þeim öllum sem segir til um skattskylduna.
Ef eiginkona er skráð aðili að búrekstri eða einhverjum öðrum atvinnurekstri eiginmanns síns, þá er hún um leið í virðisaukaskattsskyldri starfsemi. Ef einhver er skráður aðili að virðisaukaskattsskyldri starfsemi og skattskyld velta er yfir kr. 190.000 á tólf mánaða tímabili þá ber honum skylda til að innheimta virðisaukaskatt. Ef kona er gift bónda á svo litlu búi að hún hafi ekki atvinnu af því sbr. dæmið í bréfi yðar er að sjálfsögðu ekkert sem skyldar hana til að vera skráður aðili að þeim atvinnurekstri.
Af framansögðu má ljóst vera að um enga mismunun er að ræða hvað varðar virðisaukaskattsskyldu, eftir stöðu þegnanna í þjóðfélaginu.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir