Dagsetning                       Tilvísun
14. des. 1994                            657/94

 

Virðisaukaskattur af „heilun“

Vísað er til bréfs yðar dags. 8. nóv. 1994, þar sem spurst er fyrir um virðisauka- skattsskyldu af „heilun“.

Í bréfi yðar segir að verkefni á sviði „heilunar“ séu fólgin í því að kenna fólki að byggja upp innra jafnvægi, með trú á eigin getu til að nýta sér jákvæða orku umhverfisins. Starfið felst annars vegar í hópkennslu í litlum hópum, en hins vegar í einkatímum fyrir einstaklinga eða fjölskyldur.

Þér spyrjið hvort ekki sé hægt að undanþiggja þessa starfsemi á grundvelli 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og nefnið þar sérstaklega 2. tölul., sem fjallar um félagslega þjónustu, 3. tölul. um rekstur skóla og menntastofnana og 12. tölul. um starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverka og sambæri- lega listastarfsemi.

Um 2. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.

Undanþága samkvæmt þessum lið tekur aðeins til reksturs á félagslegum grunni, þ.e. rekstur barnaheimila, leikskóla, skóladagheimila, upptökuheimila og annarrar hliðstæðrar þjónustu.

Um 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.

Undanþága samkvæmt þessum lið tekur til reksturs skóla og menntastofnana svo og til kennslu sem hefur unnið sér fastan og almennan sess í hinu íslenska skólakerfi.

Um 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.

Undanþága samkvæmt þessum lið tekur til starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverka og sambærilegrar liststarfsemi.

Það er álit ríkisskattstjóra að starfsemi sú er þér lýsið í bréfi yðar falli hvorki undir þá liði sem að ofan er getið, né aðra töluliði 3. mgr. 2. gr.

Engin heimild er til þess í virðisaukaskattslögunum né reglugerðum sem settar hafa verið samkvæmt þeim að undanþiggja „heilun“ virðisaukaskatti og ber yður því að innheimta virðisaukaskatt af starfsemi yðar.

Vakin skal athygli á því að skv. 3. tölul. 4. gr. laga um virðisaukaskatt eru þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 190.900 kr. á 12 mánaða tímabili undanþegnir því að innheimta virðisaukaskatt. Fjárhæð þessi breytist 1. janúar ár hvert til samræmis við byggingarvísitölu.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir