Dagsetning Tilvísun
17. september 1993 536/93
Virðisaukaskattur af innheimtu vanskilaskulda skv. eignarleigusamningum.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 6. júlí 1993, þar sem óskað er eftir upplýsingum um hvort eignarleigustarfsemi sé virðisaukaskattsskyld í þeim skilningi að innheimta beri virðisaukaskatt hjá eignarleigufyrirtæki, við innheimtu vanskilaskulda samkvæmt eignarleigusamningum, eða hvort viðskiptamenn eignarleigufyrirtækis eigi að bera skattinn.
Í innheimtumálum þarf sérstaklega að hafa í huga að frádráttarréttur virðisaukaskatts veldur því að skatturinn myndar ekki rekstrarkostnað hjá skattskyldum (skráðum) aðilum. Af þessum sökum verður í innheimtumálum að greina á milli þess hvort krafa hafi stofnast vegna skattskyldrar starfsemi skráðs aðila eða vegna starfsemi óskráðra aðila (einstaklinga án reksturs, banka, tryggingarfélaga o.fl.). Þegar krafa varðar skattskylda starfsemi kröfueiganda er rétt að sú fjárhæð sem lögmaður, fyrir hönd kröfueiganda, krefur skuldara um til lúkningar málskostnaði sé án virðisaukaskatts, þ.e. einungis sé krafist þeirrar fjárhæðar sem nægir til að gera kröfueiganda skaðlausan af málarekstrinum. Í öðrum tilvikum hefur kröfueigandi sjálfur kostnað af þeim virðisaukaskatti sem fellur á lögmannsþóknunina og verður að fá hann bættan af skuldara. Ítrekað skal að ekki skiptir máli í þessu sambandi hver er eigandi kröfunnar þegar til innheimtu kemur, heldur hvort krafan varði skattskylda starfsemi hans.
Fjármögnunarleiga og kaupleiga flokkast undir skattskylda starfsemi eignarleigufyrirtækja, þannig að innheimta ber virðisaukaskatt hjá kröfueiganda en ekki viðskiptamönnum (skuldurum) hans. Rétt – er þó að benda á að hafi eignarleigufyrirtæki með höndum hefðbundna lánastarfsemi, t.d. lán til fjármögnunar tækja til atvinnurekstrar, og þessi starfsemi er sambærileg þjónustu banka, sparisjóða og annarra lánastofnana sem undanþegin er virðisaukaskatti skv. 10. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, er virðisaukaskattur innheimtur af viðskiptamönnum eignarleigufyrirtækis.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Árni Harðarson.