Dagsetning Tilvísun
7. maí 1990 59/90
Virðisaukaskattur af innheimtustarfsemi.
Skattstofa Reykjavíkur hefur 24. janúar sl. sent ríkisskattstjóra til afgreiðslu erindi yðar, dags. 10. október 1989, varðandi virðisaukaskatt af þjónustu yðar og konu yðar fyrir STEF, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar.
Í bréfi yðar og fylgigögnum kemur fram að starf yðar felst í því að fylgjast með samkomuhaldi í félagsheimilum á landsbyggðinni, t.d. með því að afla upplýsinga hjá lögregluyfirvöldum, og krefja húsin um greiðslur í samræmi við gjaldskrár STEFs. Um greiðslur fyrir þennan starfa segir í bréfi yðar:
„Fyrir það starf greiðast laun, sem eru ákveðið hlutfall af innkomu, svonefnd umboðslaun, og berum við hjónin kostnað við að ná STEFgjöldum inn, en hrein laun eru mismunur þessa tveggja. Við uppgjör til skattyfirvalda höfum við sent rekstraryfirlit þar sem kostnaður við innheimtuna er dreginn frá umboðslaununum. Við þetta hafa skattyfirvöld búið til úr mér fyrirtæki, sem leitt hefur til þess, að á okkur hafa fallið alls kyns gjöld og nú síðast bréfaskrif …“
Til svars erindinu skal tekið fram að innheimtuþjónusta er virðisaukaskattsskyld starfsemi, sbr. meginreglu 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Skiptir ekki máli þótt unnið sé fyrir aðila sem hefur sjálfur með höndum undanþegna starfsemi.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram koma í bréfi yðar er umsamin þóknun m.a. ætluð fyrir þeim kostnaði sem fylgir innheimtunni, þ.e. um er að ræða verktakagreiðslur. Verður samkvæmt þessu að telja starfsemina stundaða í atvinnuskyni, sbr. 1. tölul. l. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988.
Samkvæmt framansögðu hvílir sú skylda á yður og konu yðar að innheimta virðisaukaskatt af endurgjaldi fyrir umrædda þjónustu og standa skil á honum í ríkissjóð, enda nemi samtals skattskyld sala a.m.k. 155.800 kr. á ári (miðað við vísitölu 1. janúar 1990).
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.