Dagsetning                       Tilvísun
18. nóvember 1996                            760/96

 

Virðisaukaskattur af innheimtustörfum

Vísað er til bréfs yðar, dags. 19. september 1996, þar sem óskað er álits ríkis-skattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af þeirri þjónustu banka og sparisjóða, sem felst í innheimtu orkureikninga, umslagaísetningu og útsendingu yfirlita yfir greiðsluflæði.

Til svars erindinu skal tekið fram að störf við innheimtu eru virðisaukaskattsskyld, þ.e. sá sem tekur að sér fyrir annan að innheimta reikninga, skrifa út reikninga, setja þá í umslög og annast allt það sem að innheimtu lýtur, þarf að innheimta virðisaukaskatt af verkkaupa og standa skil á honum í ríkissjóð.

Í bréfi yðar segir með réttu að starfsemi banka, sparisjóða, lánastofnana og verðbréfafyrirtækja sé undanþegin virðisaukaskatti. Undir það fellur öll eiginleg bankastarfsemi, einnig innheimta banka og lánastofnana á kröfum sem stofnað hefur verið til hjá þeim. Það þýðir ekki að bankar og lánastofnanir geti hafið innheimtu á reikningum fyrir önnur fyrirtæki án þess að innheimta virðisaukaskatt. Það yrði gert í samkeppni við atvinnufyrirtæki á því sviði.

Í bréfi yðar er talað um umslagaísetningarvél sem er í eigu R. Rétt er að unnt er að telja vélina til almenns skrifstofubúnaðar og ber R ekki að útskatta eigin not af vélinni. Hins vegar ber R að innheimta virðisaukaskatt af verkum sem unnin eru í vélinni, ef þau eru seld öðrum.

Að lokum skal þess getið að aðilar sem undanþegnir eru skyldu til að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti skv. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga, mega einungis telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum sem eingöngu varða sölu þeirra á skattskyldri vöru og þjónustu, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir