Dagsetning Tilvísun
15. október 1997 825/97
Virðisaukaskattur af kostnaði við sölu með afborgunarskilmálum – skattverð
Vísað er til bréfs yðar, dags. 28. ágúst sl, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort tiltekinn lánskostnaður og annar kostnaður við afborgunarsölu teljist til skattverðs í skilningi virðisaukaskattslaga.
Meðfylgjandi bréfi yðar er ljósrit af sölureikningi og fylgiskjali skuldabréfs. Af gögnum þessum er ljóst að um er að ræða sölu með afborgunarskilmálum. Á sölureikningi kemur fram að söluverð sé 52.400 kr. en samkvæmt fylgiskjali skuldabréfs er höfuðstóll og þar með eftirstöðvar 54.234 kr. Mismunurinn skýrist þannig að kostnaður að fjárhæð 1.834 kr. er talinn vera lánskostnaður án frekari skýringa. Auk þess kemur fram í fylgiskjali skuldabréfs ósérgreindur kostnaður að fjárhæð 3.500 kr.
Samkvæmt 7. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, miðast skattverð við heildarendurgjald eða heildarandvirði hins selda án virðisaukaskatts. Í 2. mgr. ákvæðisins eru talin upp dæmi um kostnað sem telst til skattverðs á grundvelli þessa. Af upptalningunni má sjá, einkum 2. tölul., að telja ber greiðslur sem seljandi krefur kaupanda sérstaklega um sem skilyrði fyrir afborgunarsölu, aðrar en eiginlega vexti og verðbætur, til skattverðs. En í 6. tölul. 2. mgr. 7. gr. kemur fram að vextir og verðbætur, sem hvort tveggja er reiknað við sölu með afborgunarskilmálum, teljist ekki með í skattverði enda sé sérstaklega tilgreint í kaupsamningi hver vaxta- og verðbótagreiðsla sé hverju sinni.
Dæmi um kostnað sem telst til skattverðs samkvæmt ákvæðinu er lántökukostnaður sem seljandi krefur kaupanda um vegna væntanlegra þjónustugjalda bankastofnunar. Sama gildir um innheimtuþóknun sem rennur til seljanda vegna ósérgreinds kostnaðar hans við lánssöluna.
Ljóst er samkvæmt framangreindum ákvæðum að kostnaður vegna vaxtaþáttar sem reiknaður er vegna afborgunarskilmála telst ekki til skattverðs. Að sama skapi er ljóst að svokallaður lánskostnaður og annar ósérgreindur kostnaður telst til skattverðs í umræddu tilviki.
Heildarandvirði hins selda í umræddu tilviki telst því vera 52.400 + 1.834 (lánskostnaður) + 3.500 (annar ósérgreindur kostnaður) = 57.734 kr.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.