Dagsetning                     Tilvísun
19. feb. 1990                                21/90

 

Virðisaukaskattur af kvikmyndum.

Vísað er til bréfa yðar, dags. 4. og 22. jan. sl., þar sem ýmsum spurningum er varpað fram um virðisaukaskatt af kvikmyndagerð o.fl.

Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:

I.

Kvikmyndagerð sem stunduð er í atvinnuskyni er virðisaukaskattsskyld starfsemi, sbr. meginreglu 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Listrænt gildi kvikmyndar skiptir ekki máli í þessu sambandi. Þannig er framleiðsla leikinna íslenskra kvikmynda skattskyld starfsemi. Sama gildir um gerð heimildarmynda fyrir ríkisstofnanir, einkafyrirtæki eða sjónvarpsstöðvar, svo og gerð auglýsingamynda.

Kvikmyndagerðarfyrirtæki skal innheimta og skila virðisaukaskatti af skattskyldum tekjum sínum, svo sem af endurgjaldi fyrir kvikmyndaþjónustu, greiðslu fyrir sýningu kvikmyndar í sjónvarpi og sölu kvikmyndar til myndbandadreifanda. Hins vegar er aðgangseyrir að íslenskum kvikmyndum undanþeginn virðisaukaskatti, sbr. 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/2988.

Það telst íslensk kvikmynd í þessu sambandi þegar hún hefur að meginviðfangi íslenskt umhverfi, íslenskir aðilar hafa listrænt forræði yfir myndinni, hún er með íslensku tali og kynnt innanlands og erlendis sem íslensk kvikmynd.

II.

Í bréfi yðar frá 4. jan. sl. er spurt hvort virðisaukaskattur leggist á þjónustu aðila sem vinna sem undirverktakar hjá öðru fyrirtæki, einkafyrirtæki eða sjónvarpsstöð, við verkefni á sviði kvikmyndagerðar, t.d. klippingu eða töku. Einnig er spurt um virðisaukaskattsskyldu einstaklinga sem vinna „free lance“ hjá sjónvarpsstöð eða einkafyrirtæki með eða án tækja.

Í þessu sambandi þarf að kanna hverju sinni hvort greiðsla fyrir verkefni á sviði kvikmyndagerðar er launagreiðsla eða greiðsla til verktaka. Að áliti ríkisskattstjóra eru greiðslur til manna, sem fá aðstöðu til verks hjá kaupanda þjónustunnar (t.d. sjónvarpsstöð) ásamt aðstoð frá launuðum starfsmönnum hans og þurfa sjáanlega ekki að hafa neinn kostnað við verkið, launagreiðslur en ekki greiðslur til verktaka. Öðru máli gegnir um þá aðila sem taka að sér verkefni og leggja fram tæki við upptöku og gerð kvikmyndar, húsnæði eða annast aðra aðstöðusköpun vegna þáttagerðanna og bera fjárhagslega áhættu vegna starfsemi sinnar. Greiðslur til slíkra aðila eru í eðli sínu verktakagreiðslur.

Þeir sem teljast hafa sjálfstæða starfsemi með höndum samkvæmt framansögðu (verktakar) eiga að gera reikning fyrir þjónustu sinni, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, og innheimta virðisaukaskatt af endurgjaldi fyrir þjónustu sína, enda nemi skattskyld sala þeirra meiru en 155.800 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu l. janúar 1990).

III.

Virðisaukaskattur af aðföngum til kvikmyndagerðarinnar sjálfrar er frádráttarbær að fullu sem innskattur. Virðisaukaskattur af aðföngum sem varða sýningu íslenskrar kvikmyndar í kvikmyndahúsi, t.d. af auglýsingakostnaði, fæst ekki frádreginn sem innskattur, sbr. 4. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988.

Í þessu sambandi skal tekið fram að ýmis þjónusta sem kvikmyndagerðarfyrirtæki kaupir vegna starfsemi sinnar er undanþegin virðisaukaskatti.

Starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverka og sambærileg liststarfsemi er undanþegin virðisaukaskatti skv. 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Þetta undanþáguákvæði tekur m.a. til höfundar kvikmyndahandrits og leikstjóra, svo og höfunda leikmyndar; þó er samning handrits að auglýsingamynd, leikstjórn hennar o.s.frv. skattskyld til virðisaukaskatts (auglýsingaþjónusta). Störf flytjenda (leikara, dansara, tónlistarmanna o.s.frv.) sem fram koma í kvikmynd, þ. á.m. auglýsingamynd, eru einnig undanþegin á grundvelli ákvæðisins.

Áðurnefnt ákvæði 12. tölul. tekur hins vegar ekki til þóknunar fyrir t.d. dagskrárgerð eða sýningarrétt að kvikmynd. Störf kvikmyndatökumanns, ljósameistara, hljóð – meistara, klippara, svo og höfunda búninga, gerfa og brellna („special effects“) eru einnig skattskyld til virðisaukaskatts ef um er að ræða greiðslur til verktaka, sbr. það sem fram kom í kafla II hér að framan.

Vegna athugasemdar í bréfi yðar frá 22. jan. skal tekið fram að ekki er skilyrði fyrir undanþágu í þessu sambandi að aðili sé félagi í ákveðnum fagfélögum.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.