Dagsetning                       Tilvísun
21. mars 1991                             261/91

 

Virðisaukaskattur af lagningu vatnsveitu.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 20. nóvember sl. til skattstjórans í Vesturlandsumdæmi sem framsent var ríkisskattstjóra til afgreiðslu. Í bréfinu kemur fram að þér stundið landbúnað og seljið ferðaþjónustu (ferðaþjónusta bænda). Óskað er upplýsinga um hvort virðisaukaskattur fáist endurgreiddur vegna lagningar vatnsveitu að húsum sveitabæjar.

Virðisaukaskattur af lagningu vatnsveitu fæst endurgreiddur sem innskattur að svo miklu leyti sem notkun veitunnar varðar virðisaukaskattsskylda starfsemi. Landbúnaður er virðisaukaskattsskyld starfsemi, svo og fæðissala, en sala gistiþjónustu er utan skattskyldusviðs virðisaukaskattslaga.

Samkvæmt framansögðu verðið þér að skipta áætlaðri vatnsnotkun í þessa þætti: (1) Heimilisnot og (2) notkun vegna atvinnurekstrar.

Kostnaður (að meðtöldum virðisaukaskatti) við gerð veitunnar skiptist í sama hlutfalli í rekstrarkostnað og kostnað sem ekki varðar atvinnurekstur. Gera skal grein fyrir þessari skiptingu í rekstrarreikningi með tekjuskattsframtali.

Virðisaukaskattur af þeim hluta kostnaðar sem telst rekstrarkostnaður er frádráttarbær sem innskattur að því leyti sem hann varðar virðisaukaskattsskyldan rekstur. Ef kostnaður (og virðisaukaskattur) verður ekki sérgreindur í þá tvo þætti má miða skiptingu skattsins í innskatt og virðisaukaskatt sem ekki er frádráttarbær við hlutfall virðisaukaskattsskyldrar sölu (án virðisaukaskatts) af heildarveltu ársins. Sjá nánar leiðbeiningarit ríkisskattstjóra, RSK 11.15, bls. 33.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.