Dagsetning Tilvísun
22. feb. 1991 256/91
Virðisaukaskattur af leigu lóða undir sumarbústaði og þjónustu vegna þeirra.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 10. janúar 1990, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á meðferð virðisaukaskatts af nokkrum þáttum þeirrar starfsemi að leigja lóðir undir sumarbústaði. Spurt er um virðisaukaskatt vegna;
1) stofngjalds, sem greitt er við upphaf leigutíma,
2) leigugjalds,
3) rafmagns til upphitunar, eldunar og ljósa,
4) rafmagnsheimtauga,
5) sölu á heitu vatni til upphitunar og
6) sölu á heitu kranavatni.
Í bréfinu kemur fram að húsin séu ýmist hituð með rafmagni eða heitu vatni. Rafmagnið er framleitt á staðnum en auk þess er keypt rafmagn af Rafmagnsveitum ríkisins á álagstímum.
Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:
Um liði 1 og 2:
Samkvæmt 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt er fasteignaleiga undanþegin virðisaukaskatti. Ákvæðið tekur m.a. til leigu lands undir sumarbústað, óháð því hvert form er á endurgjaldi.
Um lið 3:
Sala orku í atvinnuskyni er skattskyld starfsemi samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Sala á rafmagni til upphitunar húsa er undanþegin skattskyldri veltu (ber „núllskatt“), sbr. 11. tölul. l. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt. Önnur rafmagnssala ber 24,5% virðisaukaskatt. Noti kaupandi rafmagn bæði til húsahitunar og annarra þarfa skal seljandi skipta endurgjaldi í skattskylda veltu og veltu undanþegna skattskyldu í hlutfalli við notkun. Sé ekki mögulegt að mæla mismunandi notkun má áætla undanþegna veltu miðað við orkuþörf rafmagnsofna þann tíma sem hús er í notkun. Upplýsingar um slíka áætlun skulu ævinlega vera aðgengilegar í bókhaldsgögnum seljanda.
Um lið 4:
Tengingargjöld eru hluti af skattverði (því verði sem virðisaukaskattur er reiknaður af), sbr. 7. gr. laga um virðisaukaskatt. Að áliti ríkisskattstjóra ber að miða við þið reglu að innheimta skuli virðisaukaskatt af notkunartengdum gjöldum sem innifalin eru í orkuverði eða seljandi orku krefur kaupanda sérstaklega um, nema að því leyti sem orkusalan er undanþegin skattskyldri veltu skv. 11. tölul. l. mgr. 12. gr. sömu laga (húsahitun). Séu notkunartengd gjöld bæði vegna sölu með virðisaukaskatti og sölu sem undanþegin er skattskyldri veltu ber að telja þau til skattskyldrar veltu hlutfallslega.
Um liði 5 og 6:
Samkvæmt 11. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt telst sala á heitu vatni til hitunar húsa og laugarvatns ekki til skattskyldrar veltu skráðs seljanda.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.