Dagsetning                       Tilvísun
24. mars 1992                            395/92

 

Virðisaukaskattur af leiguakstri.

Með bréfi yðar, dags. 17. janúar sl., er þeirri spurningu beint til ríkisskattstjóra hvort sendibílstjórum sé skylt að sleppa innheimtu virðisaukaskatts þegar sendibifreið er pöntuð og í ljós kemur að aðaltilgangur ferðarinnar reynist flutningur á farþegum.

Fólksflutningar eru undanþegnir virðisaukaskatti, sbr. 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Við sölu undanþeginnar þjónustu á ekki að innheimta virðisaukaskatt. Sé virðisaukaskattur innheimtur af slíkum viðskiptum ber hins vegar að skila honum í ríkissjóð nema leiðréttingu verði komið við gagnvart kaupanda.

Ekki á að gera grein fyrir sölu undanþeginnar þjónustu á virðisaukaskattsskýrslu – nema skattur hafi verið innheimtur af slíkum viðskiptum. Hins vegar skal gera grein fyrir slíkri sölu á samanburðarblaði virðisaukaskatts (RSK 10.25). Sölu sem undanþegin er virðisaukaskatti ber að sjálfsögðu að telja fram til tekjuskatts. Rétt er að sundurliða tekjur á ársreikningi eftir því hvort um er að ræða virðisaukaskattsskylda sölu eða sölu sem undanþegin er virðisaukaskatti og geta jafnframt um tegund starfsemi, t.d. leiguakstur með farþega.

Athygli skal vakin á því að sá sem bæði selur skattskylda þjónustu og þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti á ekki rétt á innskattsfrádrætti nema að því leyti sem kostnaður varðar hinn skattskylda þátt starfseminnar. Virðisaukaskatti af aðföngum sem bæði varða skattskylda sölu og undanþegna ber að skipta í frádráttarbæran innskatt og ófrádráttarbæran skatt í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 81/1991. Gildir þetta m.a. um virðisaukaskatt sem til fellur við rekstur sendibifreiðar sem bæði er notuð til skattskyldrar starfsemi og til annarra nota.

Í nefndri reglugerð er sérákvæði sem kveður á um að virðisaukaskattur fáist ekki endurgreiddur af kaupum eða leigu sendibifreiða nema þær séu eingöngu notaðar til skattskyldrar starfsemi. Samkvæmt reglugerðinni skal leiðrétta (bakfæra) innskatt ef forsendur fyrir frádrætti breytast. Þetta þýðir t.d. að sendibifreiðastjóri, sem fengið hefur virðisaukaskatt endurgreiddan af kaupverði bifreiðar, skal leiðrétta innskattsfrádráttinn ef bifreiðin er síðan notuð til undanþeginnar starfsemi, t.d. fólksflutninga.

Aldrei er heimilt að telja virðisaukaskatt af öflun, leigu eða rekstri fólksbifreiðar til innskatts, einnig þótt hún sé eingöngu notuð við skattskylda starfsemi.

Sá sem bæði hefur með höndum skattskylda og undanþegna starfsemi skal gera grein fyrir skiptingu veltu og innskatts á eyðublaðinu RSK 10.27 og láta það fylgja með skattframtali.

Ríkisskattstjóri vekur athygli yðar á 19. gr. laga um virðisaukaskatt þar sem segir að sala þeirra sem skattskyldir eru samkvæmt lögunum skuli teljast skattskyld að því leyti sem aðilar þessir geti ekki sýnt fram á með bókhaldi og gögnum sem þeim er skylt að halda að salan sé undanþegin virðisaukaskatti.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.