Dagsetning                       Tilvísun
2. ágúst 1990                             121/90

 

Virðisaukaskattur af ljósmyndastarfsemi.

Með bréfi yðar, dags. 28. maí sl., er óskað eftir áliti ríkisskattstjóra á ýmsum atriðum er varða virðisaukaskatt af starfsemi ljósmyndara. Sérstaklega er spurt um eftirtalin atriði:

  1. Þegar seldur er höfundarréttur eða birtingarréttur af ljósmyndum í erlend tímarit, bæklinga, bækur o.s.frv. sem dreift er erlendis.
  2. Þegar seld eru listaverk (ljósmyndir) til Listasafns Íslands eða annarra listasafna.
  3. Þegar seld eru listaverk (ljósmyndir) til banka, opinberra stofnana, einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja.
  4. Þegar seldar eru ljósmyndir (birtingar- eða höfundarréttur í íslenska bæklinga, bækur o.fl. sem prentaðir eru á erlendum tungumálum og dreift að mestu eða öllu leyti erlendis.
  5. Þegar seldar eru ljósmyndir (höfundar- eða birtingarréttur) í íslenskar bækur, bæklinga, póstkort o.fl. sem dreift er að mestu eða öllu leyti á Ís1andi.

Samkvæmt 2. gr. laga um virðisaukaskatt nær skattskylda samkvæmt lögunum til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra. Einnig nær skattskyldan til allrar vinnu og þjónustu sem ekki er sérstaklega undanþegin skattskyldu. Sala á ljósmyndum og ljósmyndaþjónustu sem innt er af hendi hér á landi er skattskyld samkvæmt þessum almennum ákvæðum án tillits til þess hver er kaupandi myndanna eða hvort um er að ræða sölu á ljósmynd, höfundarrétti eða birtingarrétti, sbr. þó það sem segir hér á eftir um l. lið fyrirspurnar yðar.

Eina listaverkasalan sem undanþegin er virðisaukaskatti er sala listamanna á eigin listaverkum sem falla undir tollskrárnúmer 9701.1000 til 9703.0000, sbr. 3. tölul. 4. gr. virðisaukaskattslaga. Ljósmyndir falla ekki undir þessi tollskrárnúmer.

Samkvæmt undanþáguákvæðum 3. mgr. 2. gr. laganna er starfsemi listasafna og ýmissa annarra aðila undanþegin virðisaukaskattsskyldu. Undanþágur þessar ná einungis til sölu eða afhendingar vinnu og þjónustu sem þar getur, en ekki til virðisaukaskatts af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi, sjá 4. mgr. sömu greinar.

Um liði 2 til 5: Samkvæmt framanrituðu er sú sala sem um ræðir í 2. til 5. lið fyrirspurnar yðar skattskyld samkvæmt almennum ákvæðum laga um virðisaukaskatt, án tillits til þess hver er kaupandi myndanna, eða hvort um er að ræða sölu á ljósmynd eða sölu á höfundarrétti eða birtingarrétti.

Um lið l: Framsal á höfundarrétti eða birtingarrétti til erlendra aðila er undanþegin skattskyldri veltu samkvæmt reglugerð nr. 194/1990, sem sett er á grundvelli 2. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga. Hér eru atvik nánar tiltekið þau að ljósmyndaþjónusta er innt af hendi (veitt) hér á landi en seld erlendum aðila sem annaðhvort nýtir þjónustuna að öllu leyti erlendis eða gæti talið virðisaukaskatt vegna hennar til innskatts ef hann væri skráður skattskyldur aðili hér á landi.

Að áliti ríkisskattstjóra telst birting ljósmyndar í tímariti, bæklingi, bók o.s.frv. sem gefið er út af aðila, sem hvorki hefur búsetu né starfsstöð hér á landi, þjónusta sem nýtt er að öllu leyti erlendis. Er seljanda (ljósmyndara) því ekki nauðsyn á vottorði því sem um ræðir í 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar til sönnunar rétti til undanþágu.

Tekið skal fram að sala vöru, þ.m.t. ljósmynda, úr landi er undanþegin skattskyldri veltu skv. 1. tölul. l. mgr. 12. gr. laganna. Sama gildir um ljósmyndaþjónustu sem innt er af hendi (veitt) erlendis.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.