Dagsetning                       Tilvísun
14. des. 1994                            658/94

 

Virðisaukaskattur af meindýraeyðingu

Vísað er til bréfs yðar dags. 2. desember s.l. þar sem spurst er fyrir um hvort skylt sé að innheimta og skila virðisaukaskatti af meindýraeyðingu. Einnig er spurt hvort X og öðrum sveitarfélögum sé skylt að innheimta og skila virðisaukaskatti af sömu þjónustu.

Samkvæmt 1. tölul. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, hvílir sú skylda að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð á þeim aðilum sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selja eða afhenda vörur eða verðmæti ellegar inna af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu. Sú sama skylda hvílir á ríki, bæjar- og sveitarfélögum og stofnunum eða fyrirtækjum þeirra að því leyti sem þeir aðilar selja vörur eða þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki sbr. 4. tölul. 3. gr.

Að mati ríkisskattstjóra verður starfsemi meindýraeyða ekki felld undir neitt undanþáguákvæði laga um virðisaukaskatt né reglugerða settra með stoð í þeim lögum. Það ber því að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti af starfsemi þeirra. Samkvæmt framansögðu hvílir sú sama skylda á sveitarfélögum, þar sem þau eru í samkeppni við atvinnufyrirtæki.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir