Dagsetning Tilvísun
31. des. 1992 437/92
Virðisaukaskattur af námskeiðum
Með bréfi yðar, dags. l. október 1991, þar sem þér fyrir hönd umbjóðenda yðar, M, farið fram á að felldur verði niður virðisaukaskattur af þrem eftirtöldum námskeiðum á vegum .M:
Ungar konur á öllum aldri.
Ungar stúlkur og piltar 13-16 ára.
Herrar á öllum aldri.
Fram kemur í bréfi yðar að á námskeiðum þessum sé kennd framkoma, borðsiðir, hreinlæti, mannleg samskipti o.fl. Nánar segir í bréfi yðar:
„Það er skoðun forsvarsmanna M að námskeið þessi séu ekki virðisaukaskattskyld samkvæmt 3. tl. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Námskeið þessi feli í sér endurmenntun og séu til viðbótar því sem þegar er kennt í grunnskólum og framhaldsskólum. Á námskeiðunum sé fólki kennt að ganga og bera sig vel. Slík kennsla fari að nokkru leiti fram í leikfimi og heilsurækt þeirri sem skólar landsins bjóði upp á. Mannleg samskipti og framkoma séu einnig stór þáttur í kennslu þeirri sem almenna skólakerfið bjóði upp á. Mannleg samskipti og framkoma skipti alla máli, án tillits til þess hvaða störf menn vinna. “
Til svars erindinu skal tekið fram að skv. 3. tl. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt er rekstur skóla og menntastofnana undanþegin virðisaukaskatti. Í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram að með orðalaginu „rekstur skóla og menntastofnana“ sé átt við alla venjulega skóla- og háskólakennslu, faglega menntun, endurmenntun og aðra kennslu- og menntastarfsemi sem hefur unnið sér fastan og almennan sess í skólakerfinu. Við mat á því hvenær um fagmenntun er að ræða, leggur ríkisskattstjóri áherslu á að kennslan miði að því að auka eða viðhalda þekkingu eingöngu vegna atvinnu þátttakenda. Því er ekki hægt að fallast á þá túlkun fyrirspyrjanda, að hér sé um faglega menntun að ræða.
Með hliðsjón að framankomnum upplýsingum er það álit ríkisskattstjóra að þau námskeið sem þér fjallið sérstaklega um í bréfi yðar, svo og önnur námskeið sem auglýst eru í bæklingi þeim er fylgdi bréfinu, feli hvorki í sér faglega menntun né endurmenntun í skilningi laga um virðisaukaskatt og sé því um virðisaukaskattskylda starfsemi að ræða sbr. meginreglu 2. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.