Dagsetning Tilvísun
23. október 1998 886/98
Virðisaukaskattur af námskeiðum
Vísað er til bréfs yðar, dags. 21. september 1998, þar sem spurst er fyrir um, hvort innheimta beri virðisaukaskatt af námskeiðum sem fyrirtækið hyggst bjóða upp á.
Í bréfi yðar kemur fram að námskeiðin sem verða undir faglegri umsjón Dr. Z. G, sálfræðings eru ætluð foreldrum og er efni þeirra uppeldis-ráðgjöf.
Samkvæmt 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er rekstur skóla og menntastofnana undanþegin virðisaukaskatti. Í athugasemdum við frumvarp til virðisaukaskattslaga kemur fram að til reksturs skóla og menntastofnana teljist öll venjuleg skóla og háskólakennsla, fagleg menntun, endurmenntun og önnur kennslu- og menntastarfsemi. Jafnframt kemur fram að við mat á því hvort nám teljist skattfrjálst er eðlilegt að hafa hliðsjón af því hvort boðið er upp á það í hinu almenna skólakerfi eða ekki. Hafi námsgreinin t.d. unnið sér fastan og sess í hinu almenna skólakerfi ber samkvæmt framansögðu að líta svo á að skóla- og námskeiðsgjöld séu undanþegin virðisaukaskatti.
Að mati ríkisskattstjóra hefur nám í uppeldisfræðum unnið sér fastan sess í hinu íslenska skólakerfi og ber því ekki að innheimta virðisaukaskatt af þeim námskeiðum sem um er rætt í bréfi yðar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir