Dagsetning Tilvísun
16. nóv. 1990 173/90
Virðisaukaskattur af námskeiðum tölvuskóla.
Með bréfi yðar, dags. 30. apríl 1990, er óskað eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort námskeið fyrirtækisins (tölvukennsla) séu undanþeginn virðisaukaskattsskyldu.
Til svars erindinu skal tekið fram að skv. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt er starfsemi skóla og menntastofnana undanþegin virðisaukaskatti. Með orðalaginu
„starfsemi skóla og menntastofnana“ er átt við alla venjulega skóla- og háskólakennslu, faglega menntun, endurmenntun og aðra kennslu- og menntastarfsemi sem hefur unnið sér sess í almenna skólakerfinu. Að áliti ríkisskattstjóra nær undanþáguákvæði þetta til kennslu í notkun hugbúnaðar sem fram fer á formlegum og almennum námskeiðum án þess að tengjast sölu tölvu, hugbúnaðar eða annarrar tölvuþjónustu ti1 viðkomandi nemenda. Það teljast almenn námskeið þegar þau eru opin almenningi og auglýst opinberlega. Ekki skiptir máli þótt vinnuveitandi einstakra nemenda greiði námskeiðsgjöld þeirra.
Vinna við uppsetningu tölvubúnaðar og hugbúnaðar er virðisaukaskattsskyld starfsemi. Sama gildir um leiðbeiningarþjónustu og ráðgjöf fyrir kaupendur og notendur búnaðarins, svo og námskeið sem sniðin eru að þörfum ákveðins fyrir- tækis, t.d. í tengslum við kaup þess á tölvubúnaði, og haldin fyrst og fremst fyrir starfsfólk þess. Er þá talið að um sé að ræða ráðgjöf við fyrirtækið sem slíkt.
Framangreind undanþága nær ekki til virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi, þ.e. ekki er heimilt að telja til innskatts neinn virðisaukaskatt sem tölvuskóli greiðir af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum, að því er varðar hinn skattfrjálsa hluta skólans.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.