Dagsetning Tilvísun
4. feb. 1991 228/91
Virðisaukaskattur af orkusölu.
Með bréfi yðar, dags. 22. janúar 1990, er farið fram á það að ríkisskattstjóri samþykki eftirtaldar verklagsreglur við uppgjör virðisaukaskatts hjá H
- Að ekki verði innheimtur virðisaukaskattur af snjóbræðslu þegar mesta mögulegt rennsli umfram hitaþörf húss er minna en 5 ltr/mín.
- Að ekki verði innheimtur virðisaukaskattur af vatnssölu til annarra nota en húshitunar ef fyrirhuguð notkun er innan þeirra marka er stærð húsmælis leyfir.
- Að virðisaukaskattur verði ekki innheimtur af sölu hitaveituvatns til annarra hitaveitna í eigu sveitarfélaga.
Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:
Um l. lið:
Í bréfi yðar kemur fram að í mörgum tilvikum er á sama vatnsmæli notkun til húsahitunar og viðbót vegna snjóbræðslu. Oftast er frárennslisvatn notað eingöngu, en sérstök tenging (stilling á hemli) gerir mögulegt að hleypa auknu vatnsmagni inn á snjóbræðslukerfi þegar þörf gerist. Segir í bréfinu að setja yrði upp sérstakan mæli ef mæla eigi þessa vatnsnotkun, sem oftast sé mjög lítil, og hefði það í för með sér verulegan kostnað fyrir húseiganda.
Með hliðsjón af ofangreindu gerir ríkisskattstjóri ekki athugasemd við að vatnsnotkun vegna snjóbræðslukerfis við íbúðarhús verði talin undanþegin skattskyldri veltu á sama hátt og sölu á heitu vatni til húshitunar, enda sé mesta mögulegt rennsli umfram hitaþörf hússins undir 5 ltr/mín. Sé tenging (stilling á hemli) vegna snjóbræðslukerfis 5 ltr/mín eða stærri ber að innheimta virðisaukaskatt af vatnssölu umfram hitaþörf húss.
Um 2. lið:
Eins og fram kemur í bréfi yðar ber að innheimta virðisaukaskatt af allri vatnssölu til annarra nota en húsahitunar. Vatn er talið til húsahitunar þegar vatnsþörf á skammtara (hemli) og stærð mælis og heimæðar er í samræmi við hitaþörf viðkomandi húss. Nemi fyrirhuguð notkun vegna iðnaðar o.fl. meiru en stærð húsmælis leyfir ber að innheimta virðisaukaskatt af þeirri sölu.
Um 3. lið:
Sala H á heitu vatni til annarra hitaveitna, sem endurselja það, verður að áliti ríkisskattstjóra ekki felld undir 11. tölul. 1. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga. Samkvæmt því ber H að telja þessa sölu til skattskyldrar veltu og innheimta og skila virðisaukaskatti af henni í samræmi við almennar reglur laganna.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.