Dagsetning                       Tilvísun
28. apríl 1995                            680/95

 

Virðisaukaskattur af póstdreifingu o.fl.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 1. mars 1995, þar sem þér óskið eftir skýringu ríkisskattstjóra á orðalagi laga nr. 46/1995, sem er breyting á 7. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Orðalagið sem um ræðir er “almennar dreifisendingar”. Þá er óskað eftir því hvort ríkisskattstjóri telji ákvæðið afturvirkt en umbjóðanda yðar sýnist ákvæðið hafi verið túlkað svo í raun löngu áður en það komst á blað.

Tveir viðaukar vegna bréfs yðar bárust til embættisins með myndsendi þann 6. mars 1995 og 12. apríl 1995.

Í fyrri viðaukanum óskið þér álits ríkisskattstjóra á meðferð virðisaukaskatts undirverktaka umbjóðanda yðar, sem sjá raunverulega um dreifingu á póstinum, en umbjóðandi yðar sé miklu frekar söluaðili á dreifingarverkefnum, milligönguaðili milli dreifingaraðilanna og útgefanda. Þá verður umbjóðandi yðar einnig í plastpökkun.

Í seinni viðaukanum óskið þér álits ríkisskattstjóra á leiðréttingarskyldu vegna virðisaukaskatts af aðföngum til póstdreifingar sem nýttur hefur verið sem innskattur. Einnig óskið þér álits á sölu og dreifingu á auglýsingaþjónustu.

Til svars bréfi yðar skal tekið fram að á lokastigum meðferðar frumvarps til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vskl.), var orðunum “og til almennra dreifisendinga og opinna bréfa” bætt við ákvæði 1. gr. Hins vegar láðist að lagfæra orðalag 2. mgr. greinargerðarinnar til samræmis við þá breytingu. Lagatextinn, eins og hann kemur fyrir, er réttur en greinargerðin að hluta til röng. Með hliðsjón af almennum lögskýringarsjónarmiðum gengur lagatextinn framar greinargerð, og tekur ákvæði 7. tölul. 3. mgr. 2. gr. vskl., eftir 1. maí n.k., til óáritaða bréfasendinga, eins og t.d. fjöldasendinga.

Ríkisskattstjóri álítur að 1. gr. laga nr. 46/1995 verði ekki beitt afturvirkt, enda kemur það skýrt fram í 2. gr. laganna að lögin öðlist gildi 1. maí 1995. Hvorki í lagatextanum sjálfum né í greinargerðinni með lögunum er haft á orði að lögin eigi að gilda afturvirkt.

Ákvæði 7. tölul. 3. mgr. 2. gr. vskl. eftir breytingu skv. lögum nr. 46/1995, tekur jafnt til umbjóðanda yðar sem og þeirra undirverktaka sem taka að sér verk hjá honum við póstdreifingu. Ekki skiptir máli í þessu sambandi hver er aðalverktaki eða undirverktaki, því undanþáguákvæðið tekur til allra þeirra sem inna af hendi störf sem falla undir ákvæðið.

Í bréfi yðar kemur fram, að umbjóðandi yðar er söluaðili á dreifingarverkum, milligönguaðili milli dreifingaraðilanna og útgefanda. Þetta er starfsemi sem fellur undir ákvæði 7. tölul. 3. mgr. 2. gr. vskl, frá og með 1. maí n.k., að því leyti sem um er að ræða almennar dreifisendingar. Einnig kemur fram í bréfinu að umbjóðandi yðar annast plastpökkun. Plastpökkun er starfsemi sem fellur ekki undir 7. tölul. 3. mgr. 2. gr., þar sem slík starfsemi er ekki þáttur í dreifingu á pósti. Sama er að segja um auglýsingagerð, sem umbjóðandi yðar hefur einnig með höndum. Samkvæmt orðalagi 7. tölul. 3. mgr. 2. gr. tekur ákvæðið ekki til neinnar aðvinnslu eða annarrar starfsemi sem ekki er beinn þáttur í póstdreifingu.

Hvað leiðréttingarskyldu varðar álítur ríkisskattstjóri að umbjóðanda yðar beri að leiðrétta virðisaukaskatt af aðföngum til póstdreifingar sem nýttur hefur verið sem innskattur á grundvelli gildandi reglna til og með 30. apríl 1995. Litið er svo á að orðalagið “til annarrar notkunar þar sem skattaðila ber enginn frádráttarréttur eða minni frádráttarréttur” í 13. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, feli í sér að leiðréttingarskyldan verði virk við þau tilvik þegar aðili naut fulls frádráttarréttar en nýtur síðar einskis eða minni frádráttarréttar, hvort sem það komi til vegna lagasetningar eða breyttrar starfsemi aðilans sjálfs. Ákvæði 2. mgr. 16. gr. vskl. er einnig skýrt hvað þetta varðar, þar sem segir, að ráðherra sé heimilt að setja reglur um leiðréttingu á frádrætti vegna innskatts þegar breyting verður á notkun varanlegra rekstrarfjármuna, sem hefur í för með sér breytingu á frádráttarrétti. Líta verður svo á að lagabreyting sú sem gerð var og tekur gildi 1. maí n.k. og undanþiggur póstdreifingu virðisaukaskattsskyldu leiði til breytingar á frádráttarrétti hjá umbjóðanda yðar, sbr. 2. mgr. 16. gr. vskl. og breytingar á forsendu sem um ræðir í 1. mgr. 13. gr., enda ákvæði IV. kafla reglugerðarinnar sett með það að markmiði að þeir sem áður hafa verið í virðisaukaskattsskyldri starfsemi og hafa hreinsað skattinn af aðföngum sínum leiðrétti það ef þeir stunda síðar undanþegna starfsemi. Þannig beri þau aðföng sem varða hina undanþegnu starfsemi skatt í samræmi við meginreglu 4. mgr. 2. gr. vskl. Þar kemur fram að undanþágur 3. mgr. 2. gr. vskl. taki ekki til virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi. Að lokum má nefna að í 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 192/1993, er að finna upptalningu á því hvenær leiðréttingarskyldan fellur niður. Er hér um tæmandi upptalningu að ræða og fellur umrætt tilvik ekki undir hana.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir