Dagsetning                       Tilvísun
28. apríl 1992                            400/92

 

Virðisaukaskattur af prentun Alþingistíðinda.

Með bréfi yðar, dags. 30. mars sl., er farið fram á staðfestingu ríkisskattstjóra á því að prentsmiðju þeirri, er selur Alþingi prentun Alþingistíðinda, beri að telja sölu sína til undanþeginnar veltu skv. 10. tölul. l. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga (sala bóka á íslensku). Í bréfi yðar segir m.a.:

„Alþingi kaupir Alþingistíðindi af Prentsmiðjunni Gutenberg hf. samkvæmt verksamningi. Áður en textinn fer til prentsmiðju er ekki um bók að ræða … Úr prentsmiðjunni koma tilbúnar bækur. Bók er vinna og pappír. Þessi vinna og pappír er seld Alþingi. Hér tel ég vera um sölu bók að ræða í skilningi   12. gr. VSKL … og salan því undanþegin virðisaukaskatti.“

Ríkisskattstjóri getur ekki fallist á þessa röksemdafærslu. Undanþáguákvæði 10. tölul.     l. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga telur aðeins til sölu bóka (vörusala) en ákvæðið nær ekki til sölu á prentþjónustu eða annarri vinnu við bókargerð. Fyrsta sölustig bókar er þegar hún er seld frá útgefanda, en að sínu leyti er eðlilegt að líta á útgefanda bókar sem framleiðanda hennar. Það er andstætt almennri málvenju að nota orðasambandið „sala bóka“ um viðskipti prentsmiðju og útgefanda.

Í erindi yðar kemur fram að umrædd prentsmiðja selur vinnu sína, ásamt efni sem hún leggur til í því sambandi, samkvæmt verksamningi. Er þannig augljóst að viðskiptin geta ekki fallið undir tilgreint undanþáguákvæði.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.