Dagsetning                       Tilvísun
29. ágúst 1990                             131/90

 

Virðisaukaskattur af prentun íslenskra bóka.

Að gefnu tilefni sendist yður hér með ljósrit af bréfi ríkisskattstjóra, dags. 24. ágúst sl., til F og X. Í bréfinu er að finna reglur og leiðbeiningar ríkisskattstjóra vegna niðurfellingar virðisaukaskatts (útskatts) af sölu íslenskra bóka frá og með 1. sept. nk.

Athygli yðar skal vakin á því að undanþáguákvæði laga um virðisaukaskatt tekur aðeins til sölu bóka. Þrátt fyrir undanþágu þessa ber prentsmiðjum að innheimta og skila 24,5% virðisaukaskatti vegna sölu sinnar á prentþjónustu (setningu, prentun o.s.frv.). Gildir það hvort sem selt er til skráðs (skattskylds) aðila eða óskráðra aðila (t.d. einstaklinga eða opinberra aðila). Virðisaukaskattur vegna prentþjónustu er hins vegar innskattur hjá skráðum útgefanda.

Þess er vænst að þér komið þessari ábendingu á framfæri við félagsmenn yðar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.