Dagsetning Tilvísun
11. júní 1990 95/90
Virðisaukaskattur af R.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 14. maí 1990, þar sem er að finna rökstuðning vegna þeirrar ákvörðunar yðar að flokka rit sem þér gefið út undir heildarheitinu R sem tímarit.
Með bréfinu fylgir bréf háskólabókavarðar, dags. sama dag, svo og fleiri gögn.
Ríkisskattstjóra hafa borist nokkur sýniseintök af R. Þau eru prentuð brotinu 11 x 17,2 cm og 168 bls. að stærð auk kartonkápu. Framan á kápu er að finna samheitið R, undirflokk („ástarsögur“, „ást og afbrot“, „sjúkrahússögur“, „örlagasögur“), heiti viðkomandi bókar og höfund.
Fyrsta síða er titilsíða, þar sem fram kemur heiti bókar, höfundur og útgefandi, en á bls. 2 eru aðrar bókfræðilegar upplýsingar. Er útgáfan þar ýmist nefnd „bók“ eða „rit’. Eftir áramót hefur útgefandi tilgreint árgang og tölublað á þessari síðu og nýlega einnig ritstjóra og ábyrgðarmann útgáfunnar. Hins vegar eru engar upplýsingar um árgang og tölublað á kápu.
Meginmál hefst á bls. 3. Efni hverrar bókar er ein samfelld saga (skáldsaga). Í lok hverrar bókar er að finna upplýsingar um efni næstu bókar í ritröðinni og stundum yfirlit um áður útkomnar bækur. Þannig er útgáfan kynnt gagnvart lesendum sem útgáfa bóka.
Í niðurlagi bréfs háskólabókavarðar segir að honum þyki ekki eðlilegt „ef flokka ætti ritröð eins og þá sem hér um ræðir alfarið sem bókaútgáfu“. Þar kemur hins vegar fram að útgáfa R sé í bókarformi.
Að áliti ríkisskattstjóra verður umrædd útgáfa ekki felld undir undanþáguákvæði 9. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt (sala tímarita). Útgáfan er í bókarformi og samkvæmt viðurkenndum lögskýringaraðferðum ber að skýra skattundanþágur þröngt. Algengt hefur verið hér á landi að fella bækur í bókaflokka eða ritraðir, s. s. „Sígildar sögur I”, „x-kiljur” og „y-bækurnar“.
Samkvæmt framansögðu ber að áliti ríkisskattstjóra að innheimta og skila virðisaukaskatti af sölu R þar til undanþáguákvæði 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt kemur til framkvæmda 16. nóvember nk.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.