Dagsetning Tilvísun
10. apríl 1992 398/92
Virðisaukaskattur af seldri þjónustu Skipulags ríkisins.
Með bréfi yðar, dags. 16. mars sl., er óskað leiðbeininga ríkisskattstjóra um meðferð virðisaukaskatts af seldri þjónustu Skipulags ríkisins og jafnframt spurt um rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts sem stofnunin kaupir af sjálfstætt starfandi sérfræðingum.
Til svars erindinu tekur ríkisskattstjóri fram eftirfarandi:
- Samkvæmt upplýsingum yðar er skipulagsþjónusta, sem stofnunin selur sveitarfélögum, sambærileg við þjónustu sem unnt er að kaupa af sjálfstætt starfandi arkitektum og öðrum sérfræðingum. Stofnunin er því skattskyld vegna þessarar þjónustusölu, sbr. 4. tölul. l. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt, sem kveður á um að ríkisstofnanir skuli innheimta og skila virðisaukaskatti að því leyti sem þær selja skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki.
- Í erindinu kemur fram að stofnunin hafi gert samkomulag við Ríkisbókhald um að innskattur vegna þjónustusölu teldist 10% af virðisaukaskatti sem stofnunin greiðir af aðföngum. Ríkisstofnanir hafa ekki heimild til hlutfallsskiptingar af þessu tagi. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga um virðisaukaskatt er ríkisstofnunum, sem skattskyldar eru skv. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr., aðeins heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum sem eingöngu varða sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu. Sjá einnig 10. gr. reglugerðar nr. 81/199l, um innskatt. Stofnunin má því aðeins talið til innskatts virðisaukaskatt af beinum kostnaði við hið selda, t.d. ef þjónusta sjálfstætt starfandi sérfræðings er keypt með virðisaukaskatti og endurseld í heild sinni.
- Samkvæmt 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990 hefur stofnunin rétt til að fá endurgreiddan virðisaukaskatt vegna kaupa á þjónustu verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta og annarra sambærilegra sérfræðinga. Engu breytir um endurgreiðslurétt samkvæmt þessu ákvæði að stofnunin hefur með höndum skattskylda þjónustusölu á sama eða sambærilegu sviði. Endurgreiðsla samkvæmt ákvæðinu tekur hins vegar eðli máls samkvæmt ekki til virðisaukaskatts sem stofnunin telur til innskatts, sbr. lið 2 hér að framan.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.