Dagsetning Tilvísun
23. september 1992 423/92
Virðisaukaskattur af sjónvarps- og útvarpsrekstri.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 21. ágúst sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á meðferð virðisaukaskatts af sjónvarps- og útvarpsstarfsemi.
Rekstur útvarps- og sjónvarpsstöðva er virðisaukaskattsskyld starfsemi og byggist skattskyldan á meginreglu virðisaukaskattslaga (vskl.) um skattskylda þjónustu sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Hins vegar eru afnotagjöld útvarpsstöðva undanþegin skattskyldri veltu, sbr. 9. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna. Af því leiðir að ekki ber að innheimta útskatt af afnotagjöldum en gera skal grein fyrir þessum rekstrartekjum í reit B á virðisaukaskattsskýrslu. Aftur á móti skal sjónvarpsfélagið innheimta og skila virðisaukaskatti af sölu á fréttum til S og annarri skattsskyldri sölu.
Í bréfinu er þeirri spurningu beint til ríkisskattstjóra hvort sjónvarpsfélagið eigi rétt á innskattsfrádrætti af öllum aðföngum.
Útvarpsstöð (sjónvarpsstöð) hefur rétt til frádráttar innskatts – að teknu tilliti til 16. gr. laganna – jafnt af aðföngum er varða afnotagjöld sem auglýsingatekjur og aðrar tekjur, enda beri hin keyptu aðföng virðisaukaskatt.
Enn fremur er spurt hvort S beri að innheimta virðisaukaskatt af efnissölu sinni til stöðvainnar og hvernig beri að haga þeim uppgjörum.
S sem selur sjónvarpsfélaginu sjónvarpsefni til endursýningar skal innheimta virðisaukaskatt (útskatt) af þeirri sölu, en sá skattur kemur síðan sem innskattur hjá sjónvarpsfélaginu.
Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, er þjónustusölum, öðrum en þeim sem nær eingöngu selja til endanlegra neytenda, heimilt að gefa út sölureikning í lok hvers mánaðar vegna þeirrar þjónustu sem innt var af hendi frá upphafi til loka þess mánaðar. Af þessu leiðir að S skal gefa út reikning (með virðisaukaskatti) við mánaðarleg uppgjör milli aðila.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.