Dagsetning Tilvísun
14. jan. 1991 207/91
Virðisaukaskattur af smábátum.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 11. febrúar sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á meðferð virðisaukaskatts vegna sölu súðbyrtra smábáta úr tré. Lengd hvers báts er 3,65 m.
Samkvæmt 6. tölul. l. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt er sala og útleiga skipa, þó ekki skemmtibáta, undanþegin skattskyldri veltu. Í greinargerð með frumvarpi til laganna er tilgangur ákvæðisins skýrður. Þar segir meðal annars:
„… Þó að sérreglu þessari væri ekki fyrir að fara yrði engin uppsöfnun virðisaukaskatts í fjárfestingu af þessu tagi þar eð draga mætti hann frá sem innskatt. Ákvæðið kemur hins vegar í veg fyrir fjárbindingu um langan eða skamman tíma vegna skattsins sem getur verið mjög kostnaðarsöm þar sem hér er oft á tíðum um verulega fjárfestingu að ræða. … Hliðstætt undanþáguákvæði er í gildandi söluskattslöggjöf og hefur upptaka virðisaukaskattsins því enga breytingu í för með sér að þessu leyti.“
Þessi skýring greinargerðarinnar bendir til þess að undanþáguákvæði 6. tölul. 1. mgr. 12. gr. sé ætlað að taka til sams konar skipa og féllu undir undanþáguákvæði söluskattslaga og -reglna.
Í l. mgr. l. gr. reglugerðar nr. 432/1986, um söluskatt af bátum, sagði að bátar sem eru 6 metrar að lengd eða stærri skyldu vera undanþegnir söluskatti, enda bæri bygging þeirra, fyrirkomulag og útbúnaður með sér að þeir væru byggðir til nota í atvinnuskyni og þeir uppfylli skilyrði Siglingamálastofnunar ríkisins um slíka skráningu. Í 2. mgr. sömu greinar er þó ákvæði um að af skemmtibátum skuli alltaf greiða söluskatt.
Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að bátar, styttri en 6 metrar á lengd, falli ekki undir undanþáguákvæði 6. tölul. l. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt. Hins vegar geta þeir sem nota slíka báta í virðisaukaskattsskyldri starfsemi fengið innskatt endurgreiddan (dreginn frá útskatti) eftir almennum reglum.
Vegna lokaorða bréfs yðar skal tekið fram að útreikningur söluverðs er ekki háður því hvort væntanlegur kaupandi fái innskattsfrádrátt eða ekki.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.