Dagsetning                       Tilvísun
3. feb. 1995                            663/95

 

Virðisaukaskattur af sölu á þjónustu í gegnum símalínu – beiðni um undanþágu eftir ákvæðum 1. mgr. 10 gr. reglugerðar nr. 50/1993.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 9. janúar 1995, þar sem þér fyrir hönd S leitið með eftirfarandi erindi til ríkisskattstjóra:

  1. Spurt er hvort sala á áskrift að X á Internetinu til aðila erlendis falli undir ákvæði 1. tl. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, eða 4. tl 2. gr. reglugerðar nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá. Jafnframt er spurt, hvort sala sem fram fer til aðila hérlendis falli eftir eðli máls undir 5. tl. 14. gr. nefndra laga. Um framangreint er og horft til ákvæða reglugerðar nr. 336/1993, um innheimtu virðisaukaskatts af blöðum og tímaritum sem send eru í áskrift erlendis frá í pósti.
  2. Spurt er hvort nægilegt sé að tekjufærsla umræddrar sölu í bókhaldi fari fram eftir greiðsluuppgjörum frá greiðslukortafyrirtækjum. Ef svo er ekki, er leitað til yðar um heimild til handa umbj. mínum að nota það söluskráningarkerfi, sbr. m.a. 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskylda aðila”

Um er að ræða sölu á aðgangi að X í gegnum símalínu. Spurt er sérstakaklaga um það hvort umrædd sala geti fallið undir 5. tl. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Til svars þessu skal tekið fram að skv. framangreindu ákvæði skal innheimta 14% virðisaukaskatt af sölu tímarita, dagblaða og landsmála-og héraðsfréttablaða. Að áliti ríkisskattstjóra verður ákvæðið ekki túlkað rýmra en samkvæmt skýru orðalagi þess. Af þessu leiðir tekur ákvæðið einungis til blaða og tímarita í hefðbundinni merkingu. Samkvæmt framansögðu ber því að innheimta 24,5% virðisaukaskatt af sölu á þjónustu í gegnum símalínu enda er umrædd þjónusta hvorki sérstaklega undanþegin virðisaukaskatti né fellur hún undir lægra skattþrep skv. 2. mgr. 14. gr. laganna.

Þegar umrædd þjónusta er seld úr landi eiga við ákvæði reglugerðar nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá, með síðari breytingum. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. framangreindrar reglugerðar er sala á þjónustu sem um ræðir í 2. gr. reglugerðarinnar til aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi undanþegin skattskyldri veltu enda sé þjónustan annað hvort nýtt að öllu leyti erlendis eða kaupandi gæti – ef starfsemi hans væri skaráningarskyld hér á landi – talið virðisaukaskatt vegna kaupa þjónustunnar til innskatts skv. 15. og 16. gr. laganna.

Að áliti ríkisskattstjóra fellur sala á umræddri þjónustu til erlends aðila undir a. lið 1. mgr. 1. gr. sbr. 4. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar, þ.e. um er að ræða upplýsingamiðlun sem nýtt er að öllu leyti erlendis.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, fellst ríkisskattstjóri á að veita umbjóðanda yðar til bráðabirgða undanþágu frá útgáfu sölureikninga skv. 3. gr. reglugerðarinnar vegna umræddrar sölu á meðan erindi þetta er í nánari athugun hjá eftirlitsskrifstofu ríkisskattstjóra.

Eins og að framan greinir hefur ríkisskattstjóri heimild til að víkja frá einstökum ákvæðum framangreindrar reglugerðar um útgáfu sölureikninga enda sýni viðkomandi fram á öruggt skráningar- og eftirlitskerfi. Tekið skal fram að tekjufærsla samkvæmt lögum um virðisaukaskatt skal vera við afhendingu vöru eða þjónustu sbr. þó 3. mgr. 3. gr. framangreindrar reglugerðar en þar er heimilt að tekjufæra mánaðarlega vegna afhendingar frá upphafi til loka viðkomandi mánaðar.

Að lokum skal tekið fram að framangreind heimild gildir til 31. mars 1995 eða þar til starfsmenn eftirlitsskrifstofu ríkisskattstjóra hafa kannað skráningar- og eftirlitskerfi yðar varðandi færslu tekna. Ríkisskattstjóri mun síðan taka endanlega ákvörðun um málið að lokinni umræddri könnun.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir

Ragnar M. Gunnarsson