Dagsetning Tilvísun
23. sept. 1991 347/91
Virðisaukaskattur af sölu hópbifreiða.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 31. ágúst 1990, varðandi virðisaukaskatt af kaupum og sölu bifreiða sérleyfishafa.
Í bréfinu kemur réttilega fram að fólksflutningar eru undanþegnir virðisaukaskatti, sbr. 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1988 um virðisaukaskatt. Á hinn bóginn eru vöruflutningar virðisaukaskattsskyldir. Taki fyrirtæki yðar að sér – samhliða fólksflutningum – flutning á pósti, bögglum eða öðrum vörum gegn sérstöku gjaldi er það skráningarskylt og skal innheimta virðisaukaskatt af endurgjaldi fyrir þá þjónustu, enda sé skattskyld velta meiri en 172.300 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu 1. janúar 1991).
Sérstakar reglur gilda um frádrátt virðisaukaskatts vegna aðfanga þegar starfsemi fyrirtækis er „blönduð“, þ.e. þegar starfsemi er að hluta skattskyld til virðisaukaskatts og að hluta undanþegin virðisaukaskatti. Núgildandi reglur um þetta efni er að finna í reglug. nr. 81/1991, um innskatt, sem birt var 28. febrúar sl. Þar kemur m.a. fram í 9. gr. sú sérregla að óheimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt af öflun eða leigu hópbifreiðar sem er notuð við blandaða starfsemi, en heimilt er að telja virðisaukaskatt vegna reksturs hennar til innskatts að hluta. Fram að gildistöku reglugerðar nr. 81/1991 mátti einnig telja virðisaukaskatt af kaupum hópbifreiðar, sem notuð var við blandaða starfsemi, til innskatts að hluta.
Fram kemur í 3. mgr. 11. gr. laga um virðisaukaskatt að skráðum (virðisaukaskattsskyldum) aðila ber að innheimta og skila virðisaukaskatti við sölu eða afhendingu á vélum, tækjum og öðrum rekstrarfjármunum. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. reglug. nr. 81/1991 telst sala ökutækis þó ekki til skattskyldrar veltu hafi ekki mátt telja virðisaukaskatt vegna kaupa þess til innskatts. Reglan tekur m.a. til hópbifreiða sem sérleyfishafi með blandaðan rekstur hefur keypt 28. febrúar 1991 eða síðar. Hafi sérleyfishafi með blandaðan rekstur keypt hópbifreið fyrir þennan dag og fengið virðisaukaskatt frádreginn að einhverju leyti vegna kaupanna skal telja sölu bifreiðarinnar að fullu til skattskyldrar veltu, sbr. 1. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar.
Tekið skal fram að innskattsfrádráttur vegna reksturs hópbifreiðar leiðir ekki til þess að skylt sé að telja sölu hennar til skattskyldrar veltu.
Með vísan til núgildandi reglna um frádrátt virðisaukaskatts vegna kaupa hópbifreiða er það álit ríkisskattstjóra að sala eða afhending hópbifreiða sem keyptar hafa verið án innskattsfrádráttar, t.d. bifreiðar sem keyptar hafa verið fyrir gildistöku virðisaukaskattslaga, teljist ekki til skattskyldrar veltu.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.
Hjál.: Reglug. nr. 81/1991