Dagsetning Tilvísun
19. feb. 1990 22/90
Virðisaukaskattur af sölu notaðra muna.
Vísað er til fyrirspurnar yðar frá 15. janúar sl. um virðisaukaskatt af sölu notaðra muna.
Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:
I.
Samkvæmt 11. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, á skráður (virðisaukaskattsskyldur) aðili að greiða virðisaukaskatt af sölu vöru og skattskyldrar þjónustu. Þetta gildir einnig um sölu notaðra muna sem aðili hefur keypt eða tekið í skiptum við sölu nýrrar vöru.
Skráður aðili skal einnig greiða virðisaukaskatt af sölu vöru, þ.m.t. notaðs munar, sem hann hefur móttekið í · umsýslu- eða umboðssölu, hvort sem um er að ræða sölu fyrir
skráða aðila eða óskráða, þ.m.t. einstaklinga sem ekki stunda rekstur.
Einstaklingar, sem ekki stunda rekstur, greiða ekki virðisaukaskatt af sölu notaðra muna.
Með umsýslu- og umboðssölu er í þessu sambandi átt við það þegar fyrirtæki (umsýslumaður) selur vöru i eigin nafni en fyrir reikning annars (umsýsluveitanda).
Þegar um umsýslu- eða umboðssölu er að ræða reiknast virðisaukaskattur af heildarandvirði hins selda, sbr. almennar reglur um skattverð í 7. gr. laganna.
Ef ákveðnum skilyrðum er fullnægt getur fyrirtæki haft milligöngu um viðskipti tveggja einstaklinga (þ.e. ekki aðila með rekstur) án þess að virðisaukaskattur reiknist af heildarverði. Þessi tegund af milligöngu er hér á eftir nefnd sölumiðlun.
Með sölumiðlun er átt við að miðlari (umboðsmaður) kemur fram við söluna í nafni eiganda og fyrir reikning hans. Miðlari skal greiða virðisaukaskatt af þeirri söluþóknun sem hann áskilur sér fyrir milligönguna.
II.
Eftirfarandi skilyrðum þarf að vera fullnægt til að þjónusta milligöngumanns um viðskipti teljist vera sölumiðlun:
1. Sala hinna notuðu muna skal fara fram í nafni eiganda og fyrir hans reikning á grundvelli skriflegs samnings eiganda og miðlara (umboðsmanns). Samningur aðila er bókhaldsgagn miðlara.
Í samningi eiganda og miðlara skal kveðið á um að eigandi hafi fullan ráðstöfunarrétt og eignarrétt á söluhlut gagnvart miðlara þar til hluturinn hefur verið seldur kaupanda. Miðlari hefur því ekki heimild til að lána muninn og eigandi getur ekki sett hann að handveði vegna kaupa sinna á öðrum hlut af miðlara.
Sala notaðs munar, sem tekinn hefur verið sem greiðsla við sölu annars hlutar, fellur fyrir utan reglur um sölumiðlun.
2. Miðlari má ekki tilgreina eða gefa til kynna á sölureikningi, í kaupsamningi, afsali eða öðrum söluskjölum að hann sé seljandi. Kaupandi skal fá söluskjal í hendur þar sem ótvírætt komi fram að kaupin séu gerð við eiganda söluhlutarins. Tilgreina skal nöfn, heimilisföng og kennitölur miðlara, kaupanda og seljanda í söluskjölum.
3. Miðlara er óheimilt að ábyrgjast eiginleika söluhlutar gagnvart kaupanda. Því verður að koma greinilega fram í söluskjölum sem kaupandi fær í hendur að miðlari ber ekki ábyrgð á t.d. göllum sem kunna að koma fram á söluhlut.
4. Þóknun miðlara (sölulaun) fyrir sölumiðlun skal ákveðin eftir almennum hætti; annaðhvort sem ákveðinn hundraðshluti af söluverði eða umsamin föst upphæð.
Við mat þess hvort þóknun sé ákveðin eftir almennum hætti er tekið tillit til þess (i) hvort þóknunin sé sambærileg því sem yfirleitt er notuð af öðrum miðlurum í greininni, og (ii) að miðlarinn noti þegar til lengri tíma er litið sömu viðmiðun við útreikning þóknunar.
Það telst ekki sölumiðlun ef eigandi og miðlari semja um fast verð til eiganda og að verð þar umfram falli hlut miðlara, t.d. sem þóknun. Í þessu tilviki er salan fyrir reikning og áhættu miðlarans. Hann skal þá greiða virðisaukaskatt af heildarsöluverði.
5. Miðlari sem tekur að sér að gera við söluhlut eða veita aðra slíka þjónustu í tengslum við hann skal gera kaupanda eða seljanda sérstakan reikning fyrir þessari aukaþjónustu. Sama gildir ef miðlari selur aukabúnað með söluhlut.
Sala viðgerðarþjónustu o.s.frv., svo og aukabúnaðar, telst til virðisaukaskattsskyldrar veltu miðlara samkvæmt almennum reglum. Halda skal þessari sölu aðskilinni frá tekjum af sölumiðlun (sölulaunum). 6. Við sölumiðlun má ekki taka aðra notaða muni sem
greiðslu að hluta eða að öllu leyti nema um það hafi verið gerður skriflegur samningur við eiganda og viðkomandi munir gangi sem greiðsla til hans.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.