Dagsetning                       Tilvísun
28. okt. 1994                            649/94

 

Virðisaukaskattur af sölu notaðra muna

Vísað er til bréfs yðar, dags. 16. október 1991, þar sem óskað er eftir upplýsingum um hvernig fara skuli með virðisaukaskatt af sölu notaðra muna. Í bréfi yðar er vísað í bréf ríkisskattstjóra, dags. 19. febrúar 1990, þar sem gefnar eru almennar upplýsingar um virðisaukaskatt af sölu notaðra muna, og óskað er eftir nánari útlistun ákveðinna atriða.

Svör við spurningum yðar fara hér á eftir í þeirri röð sem þeirra er spurt:

1. Það sem átt er við með því að samningur aðila sé bókhaldsgagn miðlara er að samningur sá sem eigandi gerir um sölumiðlun á að standa á bak við sölureikning þann sem miðlari gefur út til kaupanda. Miðlari þarf þó ekki að afhenda kaupanda afrit samningsins heldur á að vera hægt að ganga að honum í bókhaldi miðlarans. Í samningi þessum á að koma fram nafn og kennitala eiganda, nafn og kennitala miðlara og öll önnur atriði sem máli skipta varðandi sölu miðlunarinnar fyrir hönd eiganda eins og t.d. ákvæði um ákvörðun söluþóknunar o.s.frv.

Þá þarf að koma fram í samningi eiganda og miðlara að eigandi hafi fullan ráðstöfunarrétt og eignarrétt á söluhlut gagnvart miðlara þar til hluturinn hefur verið seldur kaupanda. Miðlari hefur samkvæmt því ekki heimild til að lána muninn. Tekið skal fram að miðlari gefur út reikning fyrir söluþóknun á eiganda og ber að innheimta virðisaukaskatt af henni.

2. Það stendur ekki í vegi fyrir því að um sölumiðlun sé að ræða þótt miðlari og eigandi hlutar semji svo um að hlutur sé seldur á einhverju ákveðnu verði og allt umfram það sé þóknun miðlara.

Hins vegar verður að greina skýrt á milli þessa og tilvika þegar beinlínis er um sölu til miðlara að ræða. Þannig teldist miðlari vera seljandi hlutar, ef upprunalegum eiganda er greitt út áður en hlutur er í raun seldur af miðlaranum og þá væri sala miðlarans á hlutnum orðin virðisaukaskattsskyld skv. 1. tl. 1. mgr. 3. gr. virðisaukaskattslaga.

3. Þar sem litið er svo á að eigandi, en ekki miðlari, sé seljandi söluhlutar, verður að telja að meginreglan sé sú að nafn og kennitala eiganda komi fram á sölureikningi miðlarans til kaupanda. Hins vegar er hægt að fallast á að heimilt sé að sleppa nafni og kennitölu seljanda, á sölureikningi miðlara til kaupanda, ef á sölureikningi er vísað til samnings seljanda og miðlara, t.d. með því að vísa í númer samnings, sem er svo að finna í bókhaldi miðlara.

Tekið skal fram að vegna sérstakra aðstæðna var ekki unnt að svara bréfi yðar fyrr.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir