Dagsetning Tilvísun
21. nóvember 1996 761/96
Virðisaukaskattur af sölu skilyrtra veiðileyfa.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 31. október sl, þar sem þér óskið eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af sölu veiðileyfa þegar veiðileyfið gildir í fyrirfram ákveðinn tíma eða þar til tilteknu aflamarki er náð.
Eins og fram kemur í bréfi yðar hefur ríkisskattstjóri álitið að endurgjald fyrir veiðirétt félli undir undanþáguákvæði 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en jafnframt að sé greiðsla tengd því hversu mikið veiðist þá sé um virðisaukaskattsskylda vörusölu að ræða.
Í bréfi yðar er aftur á móti spurt hvort um sé að ræða fasteignaleigu eða vörusölu í þeim tilvikum þegar fast gjald er greitt fyrir veiðileyfi og það gildir í fyrirfram ákveðinn tíma eða þar til tilteknu aflamarki er náð, þ.e. gildistími veiðileyfis er út veiðiárið sama hvenær á árinu það er keypt eða þar til 5 fiskar hafa verið veiddir, sama hvoru skilyrðinu er náð fyrr.
Til svars bréfi yðar er það álit ríkisskattstjóra að ef veiðileyfi er að einhverju leyti bundið veiðifeng ráði það atriði úrslitum varðandi það hvoru megin hryggjar sala á veiðileyfi lendir. Það að veiðileyfið er jafnframt tímabundið og hugsanlegt sé að veiðimaður nái ekki að veiða upp í kvótann skiptir ekki máli enda er það meginatriði að leyfið er bundið magni. Samkvæmt framansögðu ber því að líta á umrædda sölu sem vörusölu og er hún virðisaukaskattsskyld. Þess ber þó að geta að ríkisskattstjóri lítur svo á að í slíkum tilvikum sé um að ræða sölu á matvöru sbr. 8. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og ber því að innheimta 14% virðisaukaskatt af umræddri sölu.
Síðari hluti fyrirspurnar yðar svarar sér sjálfur miðað við framangreinda niðurstöðu.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.