Dagsetning                       Tilvísun
14. jan. 1991                             200/91

 

Virðisaukaskattur af sölulaunum dagblaða o.fl.

Með bréfi yðar, dags. 14. maí 1990, er óskað álits ríkisskattstjóra á eftirfarandi:

  1. Eiga dagblöð að greiða umboðsmönnum sínum virðisaukaskatt af sölu- eða umboðslaunum.
  1. Eiga dagblöð að greiða virðisaukaskatt af gengismun á pappír sem keyptur var og notaður á árinu 1989.

Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:

Um l:

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum eru dagblöð seld í söluturnum og verslunum í umsýslusölu. Útgefandi afhendir tiltekinn fjölda eintaka til söluaðila sem síðan skilar óseldum eintökum. Söluaðili fær ákveðinn hundraðshluta af útsöluverði seldra eintaka í sölulaun. Þannig fer salan fram í nafni söluaðila en fyrir reikning og áhættu útgefandans.

Í grundvallaratriðum gera virðisaukaskattslög engan mun á sölu í umsýslusölu og almennri endursölu (sölu sem fram fer fyrir reikning endurseljanda). Sala eða afhending á vöru sem seld er í umsýslusölu telst til skattskyldrar veltu skráðs aðila, sbr. 2. mgr. 11. gr. laganna. Skattverð miðast við heildarsöluverð hins selda, sbr. almennar reglur um skattverð í 7. gr. laganna. Þannig er ekki um það að ræða í viðskiptum umsýsluveitanda og umsýslumanns að virðisaukaskattur reiknist sérstaklega af söluþóknuninni (andstætt því sem gildir um þjónustu miðlara, t.d. fasteignasala) heldur er hún hluti af skattverði umsýslumanns. Afhending vöru frá umsýsluveitanda til umsýslumanns telst og til skattskyldrar veltu skráðs umsýsluveitanda. Hins vegar á hann val um það hvort hann telur söluna til skattskyldrar veltu við afhendingu eða þegar uppgjör fer fram við umsýslumann, sbr. 4. mgr. 13. gr., enda gæti hann skilyrða þess ákvæðis.

Sala dagblaða, jafnt í áskrift sem lausasölu, er undanþegin skattskyldri veltu, sbr. 9. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna. Ákvæðið tekur einnig til viðskipta sem fram fara í umsýslusölu, sbr. þær almennu reglur sem reifaðar voru hér að framan.

Samkvæmt framansögðu er svar við fyrirspurn yðar það að dagblöð greiða söluaðilum ekki sérstaklega virðisaukaskatt af sölulaunum.

Um 2:

Hér mun vera um það að ræða að dagblaðið hefur nokkurra mánaða greiðslufrest vegna kaupa á blaðapappír. Skuldin er gengistryggð. Seljandi gerir reikning vegna þessa gengismunar þegar að gjalddaga er komið.

Að áliti ríkisskattstjóra er eðlilegast að líta á þennan kostnað sem fjármagnskostnað. Rétt er að halda honum fyrir utan skattverð, þ.e. virðisaukaskattur reiknast ekki af honum, en það leiðir af 6. tölul. 2. mgr. 7. gr. laga um virðisaukaskatt – sbr. og undanþáguákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. – að vextir og verðbætur, sem hvort tveggja er reiknað við greiðslu skuldar þegar hún fellur í gjalddaga, er utan skattverðs.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.