Dagsetning                       Tilvísun
17. ágúst 1990                         125/1990

 

Virðisaukaskattur af starfsemi dvalarstofnana.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 17. apríl sl. , þar sem óskað er svara við nokkrum spurningum varðandi virðisaukaskatt af starfsemi G og Á.

Áður en vikið verður að þeim spurningum sem varpað er fram í erindinu þykir rétt að undirstrika að starfsemi dvalarheimila fyrir aldraða er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 2. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Samkvæmt þessu ber ekki að greiða virðisaukaskatt af endurgjaldi því sem dvalarheimilið áskilur sér fyrir dvöl vistmanna, aðhlynningu ýmiss konar og þjónustu sem telst eðlilegur hluti af starfsemi þess sem dvalarheimilis.

Á hinn bóginn er þess að geta að samkvæmt 2. mgr. 3. gr. tilvitnaðra laga getur fjármálaráðherra ákveðið með hliðsjón af samkeppnisaðstæðum að atvinnufyrirtæki, félög, stofnanir og aðrir aðilar greiði virðisaukaskatt af skattskyldum vörum og þjónustu þegar vara er framleidd eða þjónusta innt af hendi eingöngu til eigin nota. Á grundvelli þessarar heimildar hefur ráðherra þegar gefið út reglugerð um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana, en sérprentun af reglugerð þessari, sem er nr. 562/1989, er hjálögð.

Hér á eftir verður síðan spurningum yðar svarað í sömu röð og þær eru lagðar fram í tilvitnuðu erindi yðar:

  1. Rekstur þvottahúss G er skattskyld starfsemi, sbr. 2. tölul. l. mgr. 2. gr. áðurnefndar reglugerðar nr. 562/1989, enda telst hún rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Um ákvörðun skattverðs, bókhald og uppgjör skattsins vísast að öðru leyti til reglugerðarinnar.
  1. Rekstur mötuneytis fyrir vistmenn á sjúkrahúsum og vist- og dvalarheimilum fyrir aldraða er að áliti ríkisskattstjóra undanþeginn virðisaukaskatti. Bæði er að reksturinn hlýtur að teljast nauðsynlegur þáttur í sjúkra- og öldrunarþjónustu þessara stofnana og samkeppnisaðstæður þykja í þessu tilviki ekki vera með þeim hætti að þær geri skattskyldu nauðsynlega.

    Rekstur mötuneytis fyrir starfsfólk heilsuhælisins telst hins vegar skattskyld starfsemi. Þar af leiðir að innheimta ber virðisaukaskatt af sölu fæðis til starfsmanna, gesta og allra annarra en vistfólks.
  1. Aðkeypt vinna iðnaðarmanna á byggingarstað, hvort sem um er að ræða nýbyggingu, viðhald eða endurbyggingu er virðisaukaskattsskyld. Vinna starfsmanna vistheimilanna G og Á, jafnt iðnaðarmanna sem ófaglærðra, við nýbyggingu, viðhald og endurbyggingu er skattskyld skv. 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi (sjá hjálagða sérprentun). Þess skal sérstaklega getið að vinna eigin starfsmanna við viðgerðir og viðhald bygginga er aðeins skattskylt sé heildarkostnaður við framkvæmdirnar a.m.k. 545.000 kr. á ári (miðað við vísitölu l. jan. sl.).
  1. Störf gangastúlkna við dagleg þrif bæði á göngum og herbergjum vistmanna samhliða aðhlynningu teljast eðlilegur þáttur í starfsemi dvalarheimilis og ber því ekki að greiða virðisaukaskatt af þeirri starfsemi.
  1. Vinna við hárgreiðslu, klippingu og fótsnyrtingu er skattskyld og skal í því sambandi vísað til 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 562/1989.
  1. Rekstur garðyrkjustöðvar er skattskyld starfsemi samkvæmt almennum ákvæðum laga um virðisaukaskatt. Um skattverð afurða sem ekki eru seldar á almennum markaði vísast til 8. gr. laganna.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.