Dagsetning                       Tilvísun
13. desember 1995                            707/95

 

Virðisaukaskattur af starfsemi Framkvæmdasýslunnar.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 20. des. sl., þar sem óskað er eftir endurskoðun á áliti ríkisskattstjóra dags. 31. jan 1992 varðandi virðisaukaskatt af starfsemi stofnunarinnar.

Í framangreindu bréfi ríkisskattstjóra til stofnunarinnar var starfsemi hennar (eftirlit með opinberum framkvæmdum) ekki talin vera í samkeppni við atvinnufyrirtæki og því talin falla utan skattskyldusviðs virðisaukaskattslaga.

Með lögum nr. 55/1993 var ýmsum ákvæðum laga nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, breytt í samræmi við ákvæði samningsins um hið Evrópska Efnahagssvæði. Meðal annars er kveðið á um skyldu til að bjóða út ákveðin verk og skv. 22. gr. laganna er þar með talið verkeftirlit.

Með reglugerð nr. 601/1995, frá 20. nóvember sl., var m.a. ákvæði 6. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, breytt á þann veg að ýmis lögbundin starfsemi opinberra aðila telst ekki rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Hér er um að ræða lögbundna starfsemi þegar annars vegar öðrum aðilum er ekki heimilt að veita sambærilega þjónustu með sömu réttaráhrifum og hins vegar þegar viðkomandi þjónusta beinist eingöngu að öðrum opinberum aðilum, hún verður ekki veitt af atvinnufyrirtækjum nema í umboði viðkomandi opinbers aðila og að því tilskyldu að virðisaukaskattur af viðkomandi vinnu og þjónustu fáist endurgreiddur samkvæmt 12. gr. reglugerðarinnar.

Að áliti ríkisskattstjóra þykir ljóst að framangreind þjónusta Framkvæmdasýslunnar telst ekki rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki enda er hér um að ræða lögbundna starfsemi sem fellur undir framangreint ákvæði reglugerðar nr. 248/1990, þ.e. þjónustan beinist eingöngu að opinberum aðilum, hún verður einungis veitt af atvinnufyrirtækjum í umboði hennar og virðisaukaskattur af viðkomandi þjónustu fæst endurgreiddur samkvæmt 12. gr. sömu reglugerðar.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.