Dagsetning                     Tilvísun
29. mars. 1990                           35/90

 

Virðisaukaskattur af starfsemi H.

Í bréfi, dags. 28. desember sl., óskið þér svara við nokkrum spurningum sem þér varpið fram varðandi skattskyldu ýmissa þátta í starfsemi dvalarheimilis H eða í tengslum við starfsemi þess.

Áður en vikið verður að þeim spurningum sem varpað er fram í erindinu þykir rétt að undirstrika að starfsemi dvalarheimila fyrir aldraða er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 2. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Samkvæmt þessu ber ekki að greiða virðisaukaskatt af endurgjaldi því sem dvalarheimilið áskilur sér fyrir dvöl vistmanna, aðhlynningu ýmiss konar og þjónustu sem telst eðlilegur hluti af starfsemi þess sem dvalarheimilis.

Á hinn bóginn er þess að geta að samkvæmt 2. mgr. 3. gr. tilvitnaðra laga getur fjármálaráðherra ákveðið með hliðsjón af samkeppnisaðstæðum að atvinnufyrirtæki, félög, stofnanir og aðrir aðilar greiði virðisaukaskatt af skattskyldum vörum og þjónustu þegar vara er framleidd eða þjónusta innt af hendi eingöngu til eigin nota. Á grundvelli þessarar heimildar hefur ráðherra þegar gefið út reglugerð um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana, en sérprentun af reglugerð þessari, sem er nr. 562/1989, er hjálögð.

Hér á eftir verður síðan spurningum yðar svarað í sömu röð og þær eru lagðar fram í tilvitnuðu erindi yðar:

  1. Rekstur þvottahúss H er skattskyld starfsemi, sbr.2. tölul.1. mgr.2. gr. áðurnefndar reglugerðar nr. 562/1989, enda telst hún rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki.Um ákvörðun skattverðs, bókhald og uppgjör skattsins vísast að öðru leyti til reglugerðarinnar.
  1. Aðkeypt vinna iðnaðarmanna á byggingarstað, hvort sem um er að ræða nýbyggingu, viðhald eða endurbyggingu er virðisaukaskattsskyld. Vinna starfsmanna H, jafnt iðnaðarmanna sem ófaglærðra, við nýbyggingu,    viðhald og endurbyggingu er skattskyld skv. 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi (sjá hjálagða sérprentun).           Þess skal sérstaklega getið að vinna við viðgerðir og viðhald bygginga er aðeins skattskylt sé heildarkostnaður við framkvæmdirnar a.m.k.545.000 kr. á ári (miðað við vísitölu l. jan. sl.).
  1. Vinna við hárgreiðslu, klippingu og fótsnyrtingu er skattskyld og skal í því sambandi vísað til 4. tölul. l. mgr.2. gr. reglugerðar nr.562/1989.
  1. Kjötvinnsla á H fyrir vistheimilið sjálft er ekki skattskyld. Kjötvinnsla í það stórum stíl að ekki sé hægt að telja hana eðlilegan hluta eldhús- eða matreiðslustarfa vegna einstakrar máltíðar fyrir vistmenn er skattskyld, sbr. 2. gr. reglugerðar nr.  562/1989.
  1. Útgáfa H, sem er blað vistmanna, getur ekki talist stunduð í atvinnuskyni og því eru auglýsingatekjur af útgáfunni undanþegnar skattskyldu. Til nánari fróðleiks um þennan þátt máls sendist yður hér með bréf ríkisskattstjóra, dags. 16. mars sl., um virðisaukaskatt af tímaritum o.fl.
  1. Um útgáfu og sölu á Sjómannadagsblaðinu verður til bráðabirgða að vísa til fyrrgreinds bréfs ríkisskattstjóra, dags. 16. mars sl., um virðisaukaskatt af tímaritum o.fl. Tekið skal fram að þótt Sjómannadagsblaðið komi aðeins út einu sinni á ári er það að áliti ríkisskattstjóra tímarit í þeim skilningi sem fram kemur í bréfi embættisins, en við mat þess hvort útgáfan teljist vera í atvinnuskyni verður að kanna hvort hagnaður sé af útgáfunni og athuga aðstæður að öðru leyti.
  1. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ríkisskattstjóri hefur um veiðarfæragerð vistmanna mun hún ekki vera stunduð fyrir eigin reikning þeirra, heldur eru þeir launþegar hjá veiðafærasölum. Þar af leiðandi er veiðarfæragerðin ekki virðisaukaskattsskyld starfsemi vistmanna eða dvalarheimilisins.
  1. Störf gangastúlkna við dagleg þrif bæði á göngum og herbergjum vistmanna samhliða aðhlynningu teljast eðlilegur þáttur í starfsemi dvalarheimilisins og ber því ekki að greiða virðisaukaskatt af þeirri starfsemi.
  1. Rekstur mötuneytis fyrir starfsfólk dvalarheimilisins telst skattskyld starfsemi. Rekstur barnaheimilis og orlofshúsa fyrir starfsfólk er hins vegar undanþeginn skattskyldu skv. 2. og 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt.
  1. Rekstur mötuneytis fyrir vistmenn á sjúkrahúsum og vist- og dvalarheimilum fyrir aldraða er að áliti ríkisskattstjóra undanþeginn virðisaukaskatti. Bæði er að reksturinn hlýtur að teljast nauðsynlegur þáttur í sjúkra- og öldrunarþjónustu þessara stofnana og samkeppnisaðstæður þykja í þessu tilviki ekki vera með þeim hætti að þær geri skattskyldu nauðsynlega. Það breytir ekki þessari niðurstöðu þótt sameiginlegur rekstur sé með H og annarri dvalarstofnun um mötuneytið. Rekstur þvottahúss er á hinn bóginn skattskyldur, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 562/1989, hvort sem um er að ræða sameiginlegan rekstur með öðrum heilbrigðis- og dvalarstofnunum eða ekki. .
  1. Ekki kemur fram í bréfi yðar í hverju þjónustu við íbúa í vernduðum þjónustuíbúðum aldraðra er fólgin. Falli þjónusta þessi undir félagslega öldrunarþjónustu samkvæmt lögum nr. 82/1989, um málefni aldraða, telst hún ekki skattskyld, sbr. undanþáguákvæði í 2. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Að öðrum kosti verður að kanna þennan þátt nánar.
  1. Óljóst er að hve miklu leyti rétt sé að telja svonefnt „verktakagjald og álag á verktakagjald“, sem rekstraraðili Laugarásbíós greiðir til þess, vera fasteignaleigu og að hve miklum hluta lausafjárleigu eða hugsanlega þóknun fyrir afnot af sýningarrétti. Þarf m.a. að athuga hvort sýningavélar og annar tækjakostur er lagður til af eiganda L. Húsaleiga er skattfrjáls, en hins vegar er lausafjárleiga svo og framsal annars en höfundar á sýningarrétti skattskyld.

Til svars spurningum í lok bréfsins um hvernig staðið skuli að framkvæmd þeirra liða sem skattskyldir eru samkvæmt framansögðu vísast til leiðbeiningarrits ríkisskattstjóra um virðisaukaskatts, sem hér fylgir, sjá t.d. um frádrátt innskatts á bls. 31 og áfr. Tekið skal fram að innskattur fæst ekki frádreginn eða endurgreiddur vegna þeirrar starfsemi sem undanþegin er skattskyldu. Byggingar dvalarstofnana teljast ekki íbúðarhúsnæði í skilningi reglugerðar nr. 641/1989, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til byggjenda íbúðarhúsnæðis, og getur því ekki komið til endurgreiðslu virðisaukaskatts á þeim grunni.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.