Dagsetning Tilvísun
4. feb. 1991 230/91
Virðisaukaskattur af starfsemi Háskóla Íslands.
Með bréfi yðar, dags. 26. janúar 1990, er þess aðallega farið á leit við ríkisskattstjóra að Háskóli Íslands verði undanþeginn virðisaukaskatti, en til vara að stofnuninni verði fyrst um sinn heimilað að nota þá aðferð við uppgjör virðisaukaskatts að reikna innskatt sem 50% af útskatti þeirra reikninga sem Háskólinn gerir og eigi lögum samkvæmt að vera með virðisaukaskatti.
Til svars erindinu skal tekið fram að opinberar stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins eru skyld til að innheimta og skila virðisaukaskatti að því leyti sem þessir aðilar selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt. Ríkisskattstjóri hefur enga lagaheimild til að veita undanþágu frá skattskyldu samkvæmt þessu ákvæði.
Ekki kemur fram í erindi yðar hvaða starfsemi Háskóla Íslands hefur með höndum sem hugsanlega fellur undir ofangreint ákvæði. Almennt má miða við að selji opinber stofnun með hagnaði vörur af sama toga og atvinnufyrirtæki eða hafi með höndum skattskylda þjónustu sem einnig er fáanleg á almennum markaði – einnig þótt stofnuninni sé skylt samkvæmt lögum að veita þá þjónustu – beri henni að innheimta og skila virðisaukaskatti af andvirði þeirrar vöru eða þjónustu. Til dæmis má taka útselda sérfræðiþjónustu og útselda almenna tölvuþjónustu.
Um skattverð (það verð sem virðisaukaskattur reiknast af) vísast til reglna III. kafla virðisaukaskattslaga.
Opinberar stofnanir mega einungis telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum sem eingöngu varða sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu, sbr. 4. mgr. 16. gr. virðisaukaskattslaga. Þannig getur stofnunin talið til innskatts þann virðisaukaskatt sem hún greiðir vegna beins kostnaðar við hið selda. Ákvæði í reglugerð nr. 530/1989 um skiptingu innskatts vegna blandaðrar starfsemi taka ekki til opinberra stofnana.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.