Dagsetning                       Tilvísun
18. feb. 1994                            618/94

 

Virðisaukaskattur af starfsemi hlutafélags í eigu sveitarfélags og fyrirtækja þess

Vísað er til bréfs yðar, dags. 30. desember sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort starfsemi hlutafélags í eigu sveitarfélags o.fl. sé virðisaukaskattsskyld.

Í bréfi yðar er starfsemi félagsins lýst þannig að um sé að ræða kynningar- og upplýsingaþjónustu, ráðgjafaþjónustu o.fl.

Enn fremur er eftirfarandi tekið fram:

„Ekki er ætlunin að selja þjónustu félagsins til Reykjavíkurborgar eða einstakra stofnana eða fyrirtækja hennar heldur munu hluthafar leggja félaginu til rekstrarframlag til greiðslu rekstrarkostnaðar svo og sérstök framlög vegna styrkja og hlutabréfakaupa eftir því sem stjórn félagsins ákveður.“

Í framhaldi af því sem að ofan greinir eru lagðar fram eftirfarandi spurningar:

  1. Er hér um að ræða virðisaukaskattsskylda starfsemi?
  1. Ef svar við 1. spurningu er játandi, hvaða hluti starfseminnar er þá virðisaukaskattsskyldur?
  1. Geta rekstrarframlög hluthafa til félagsins verið virðisaukaskattsskyld?
  1. Er félaginu skylt að selja þjónustu sína?

Svar við 1. spurningu:

Að áliti ríkisskattstjóra er félagið skattskyldur aðili samkvæmt lögum um virðisaukaskatt á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna, enda er um hlutafélag að ræða. Sá fyrirvari sem greinir í 4. tölul. sömu málsgreinar hefur þar af leiðandi ekki þýðingu í þessu sambandi.

Svar við 2. spurningu:

Með vísan til þess sem að framan greinir og þess að ekkert undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga tekur til starfsemi félagsins þá ber að innheimta virðisaukaskatt af allri starfsemi félagsins.

Svar við 3. spurningu:

Í bréfinu segir að ekki sé ætlunin að selja þjónustu félagsins en hluthafar muni leggja félaginu til rekstrarframlag til greiðslu rekstrarkostnaðar svo og sérstök framlög vegna styrkja. Þrátt fyrir að ekki sé beint um sölu að ræða þá eru það sömu aðilar sem leggja félaginu til fjármagn og njóta þjónustu þess. Samkvæmt framansögðu eru því tekjur félagsins annars vegar rekstrarframlög og hins vegar framlög vegna styrkja. Líta má svo á að framangreind framlög hluthafa séu í raun greiðslur fyrir þá þjónustu sem félagið afhendir þeim og ber því að innheimta virðisaukaskatt af slíkum greiðslum.

Svar við 4. spurningu:

Með vísan til þess sem að framan greinir er litið svo á að félagið selji þjónustu sína til hluthafanna þótt endurgjald fyrir veitta þjónustu sé í formi rekstrarframlags eða framlags vegna styrkja til félagsins.

Samkvæmt framansögðu er það álit ríkisskattstjóra að umrætt félag reki virðisaukaskattsskylda starfsemi enda sé starfsemin rekin í atvinnuskyni. Við mat þess hvort starfsemi er rekin í atvinnuskyni er miðað við hvort tilgangur starfseminnar sé að skila hagnaði af rekstri. Starfsemin telst ekki rekin í atvinnuskyni ef samtals tekjur vegna hennar eru alltaf eða nær alltaf lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti vegna starfseminnar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir