Dagsetning Tilvísun
14. jan. 1991 208/91
Virðisaukaskattur af starfsemi hótels.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 25. janúar 1990, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort ýmsir tilgreindir þættir .í starfsemi hótels eða í tengslum við slíka starfsemi séu skattskyldir samkvæmt lögum um virðisaukaskatt.
Af þessu tilefni vill ríkisskattstjóri taka fram eftirfarandi:
A. Almenn hótelstarfsemi o.fl.
Útleiga hótelherbergja o.fl. Samkvæmt 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga er fasteignaleiga, þ.m.t. útleiga hótelherbergja, undanþegin virðisaukaskatti, sjá þó lið B hér á eftir. Að áliti ríkisskattstjóra má líta svo á að undanþáguákvæðið taki einnig til þeirrar þjónustu sem hótel veitir gestum sínum í tengslum við dvölina án sérstaks endurgjalds, t.d. símaþjónustu, þvotts og hreinsunar á fatnaði eða ef aðgangur er veittur að nuddstofu.
Þjónusta seld sérstaklega. Sé þvottur og hreinsun, nudd eða önnur virðisaukaskattsskyld þjónusta seld sérstaklega ber að innheimta virðisaukaskatt af andvirði hennar.
Aðgangseyrir að sundlaug og gufubaði. Þessi þjónusta er undanþegin skattskyldu; hið síðarnefnda er talið undanþegið þá þeim grundvelli að um sé að ræða heilsuræktarstarfsemi.
Vörusala. Sala á vöru, þ.m.t. sala veitinga, er jafnan skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt.
B. Útleiga samkomusala
Útleiga veitinga- og samkomuhúsnæðis er skattskyld, sbr. 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga eins og ákvæðinu var breytt með lögum nr. 106/1990.
Þjónusta sem veitt er í tengslum við samkomuhald. Slík þjónusta er öll skattskyld, svo sem innkaupaþjónusta, skipulagningar- og undirbúningsstörf, tæknivinna, framreiðsla, ræsting og útleiga lausafjármuna.
C. Um dansleikjahald og annað skemmtanahald
Aðgangseyrir að dansleik og öðrum skemmtisamkomum er ætíð skattskyldur. Þó er aðgangseyrir að tónleikum og leiksýningum undanþeginn virðisaukaskatti ef samkomur þessar tengjast ekki á neinn hátt öðru samkomuhaldi eða veitingastarfsemi. Tekjur af bingó, hlutaveltu og öðrum happdrættum eru undanþegnar skattinum.
Skylda til að innheimta virðisaukaskatt af aðgangseyri að skattskyldri samkomu hvílir á þeim sem stendur fyrir samkomunni (samkomuhaldara). Einstakir tónlistarmenn og hljómsveitir selja vinnu sína án virðisaukaskatts; þessir aðilar eru undanþegnir skattskyldu skv. 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt nema þeir séu sjálfir samkomuhaldarar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.