Dagsetning Tilvísun
4. feb. 1991 226/91
Virðisaukaskattur af starfsemi íþróttafélaga.
Að gefnu tilefni vill ríkisskattstjóri koma á framfæri við yður túlkun sinni á undanþáguákvæði 5. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga, en samkvæmt ákvæðinu er íþróttastarfsemi undanþegin virðisaukaskatti. Hafa ýmis íþróttafélög beint spurningum til ríkisskattstjóra um atriði sem leitast er við að svara í þessu bréfi. Þess er vænst að ÍSÍ komi efnisatriðum þessa bréfs á framfæri við aðildarsambönd sín og einstök íþróttafélög.
Hér á eftir verður fyrst fjallað almennt um undanþáguákvæði 5. tölul. 3. mgr. 2. gr., einkum hugtakið „íþróttastarfsemi“, og síðan vikið að einstökum tekjuöflunarleiðum íþróttafélaga og virðisaukaskatti í því sambandi.
I.
Samkvæmt 5. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt er íþróttastarfsemi undanþegin virðisaukaskatti. Jafnframt er sérstaklega kveðið á um það í ákvæðinu að aðgangseyrir að íþróttamötum og íþróttasýningum njóti undanþágu.
Sala á aðstöðu til íþróttaiðkunar.
Orðið „íþróttastarfsemi“ kom inn í lagatextann með breytingalögum nr. 119/1989. Í frumvarpi til þeirra laga er breytingin sögð m.a. hafa þá þýðingu að ýmis konar æfingagjöld, sem íþróttafélög innheimta af félagsmönnum, falli undir undanþáguákvæðið. Með hliðsjón af þessari skýringu túlkar ríkisskattstjóri undanþáguákvæðið þannig að það taki til allrar sölu íþróttafélaga á aðstöðu til æfinga og iðkunar íþrótta. Með íþrótt er átt við hvers konar líkamlega þjálfun með iðkun íþróttagreinar sem almennt er stunduð innan aðildarfélaga Íþróttasamband Íslands, hvort heldur sem tilgangur þjálfunarinnar er keppni og afrek eða stefnt er aðallega að heilsurækt og dægradvöl. Starfsemi innan S og B fellur einnig hér undir.
Undanþágan tekur jafnframt til þeirrar starfsemi opinberra aðila sem sambærileg er undanþeginni starfsemi íþróttafélaga.
Starfsemi atvinnufyrirtækja fellur ekki undir „íþróttastarfsemi“ eins og það orð er skýrt hér að framan.
Sundstaðir og skíðalyftur.
Sérstaklega er tekið fram í 5. tölul. 3. mgr. 2. gr. að aðgangseyrir að sundstöðum og skíðalyftum sé undanþeginn. Þessi undanþága tekur jafnt til íþróttafélaga, opinberra aðila og atvinnufyrirtækja.
Kennsla í íþróttum.
Kennsla og þjálfun í íþróttum sem íþróttafélag veitir innan vébanda sinna, þ.e. eingöngu fyrir félagsmenn, er að áliti ríkisskattstjóra þáttur í íþróttastarfsemi og undanþegin virðisaukaskatti skv. 5. tölul. 3. mgr. 2. gr. Sala atvinnufyrirtækja á kennslu í iðkun íþróttar er skattskyld nema hún verði felld undir ákvæði 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. Sama gildir um sölu íþróttafélaga á skattskyldri kennslu til utanfélagsmanna.
Aðgangseyrir að íþróttamótum o.fl.
Eins og áður segir er sérstaklega tekið fram í 5. tölul. 3. mgr. 2. gr. að aðgangseyrir að íþróttamótum o.fl. sé undanþeginn.
Almenn félagsgjöld íþróttafélaga og annarra félagasamtaka, þ.e. þegar ekki er um að ræða endurgjald fyrir sérgreinda veitta þjónustu, eru ekki skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt – í þessu falli. á engin skattskyld afhending sér stað af hálfu félagsins. Sama gildir um fjárstyrki sem opinberir aðilar veita til íþróttafélags.
II.
Íþróttafélög eru skattskyld vegna sölu sinnar á skattskyldri vöru og þjónustu sem fram fer í atvinnuskyni, enda þótt þau selji aðeins félagsmönnum sínum, sbr. l. og 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt. Við mat þess hvort starfsemi er rekin í atvinnuskyni er aðallega miðað við hvort tilgangur starfseminnar sé að skila hagnaði af rekstri. Starfsemi telst ekki rekin í atvinnuskyni ef samtals tekjur vegna hennar eru alltaf eða nær alltaf lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti vegna starfseminnar.
Auglýsingasala.
Sala á auglýsingum er virðisaukaskattsskyld starfsemi. Ef þessi starfsemi telst í heild sinni vera í atvinnuskyni, eins og það hugtak er skýrt hér að ofan, ber að innheimta og skila virðisaukaskatti af allri auglýsingasölu íþróttafélags, svo sem sölu á auglýsingastæðum, sölu á auglýsingum á keppnisbúninga og sölu auglýsinga í leikskrár og félagsblöð. Ef auglýsingasalan í heild skilar félaginu hagnaði skiptir ekki máli þó að einstakir þættir starfseminnar (t.d. sala á auglýsingum og styrktarlínum í leikskrá) standi ekki undir kostnaði.
Tekið skal fram að telja má til innskatts þann virðisaukaskatt sem félag greiðir vegna aðfanga er eingöngu varða sölu á auglýsingum, þ.m.t. virðisaukaskatt af auglýsingaskiltum, áprentun á keppnisbúninga og prentun leikskrár og félagsblaðs.
Rekstur verslunar.
Rekstur verslunar með hvers konar vöru er virðisaukaskattsskyld starfsemi samkvæmt meginreglum virðisaukaskattslaga.
Ekki skiptir máli um skattskyldu þó að söluvara verslunar hafi verið greiðsla fyrir auglýsingar. Auglýsandi er jafnframt seljandi vörunnar í þessu dæmi og ber honum því að innheimta virðisaukaskatt af andvirði hennar og er sá skattur innskattur íþróttafélags. Íþróttafélaginu ber síðan að innheimta virðisaukaskatt (útskatt) af sölu til neytenda.
Íþróttafélagið getur talið til innskatts í þessu sambandi greiddan virðisaukaskatt af vörum sem það kaupir til endursölu (þ.m.t. minjagripum og íþróttabúningum) og öðrum aðföngum vegna reksturs verslunar.
Veitingasala.
Hvers konar veitingasala, bæði innan- og utanhúss, er virðisaukaskattsskyld. Hins vegar ber ekki að innheimta virðisaukaskatt af ókeypis kaffiveitingum í leikhléi, enda verður ekki séð að greitt sé fyrir þær með sölu ársmiða eða öðrum hætti. Þess ber þó að geta að enginn innskattsfrádráttur er heimill af aðkeyptum vörum vegna þeirra veitinga.
Lausafjárleiga.
Lausafjárleiga er skattskyld, einnig þótt hún tengist íþróttastarfsemi félagsins. Til dæmis ber að innheimta og skila virðisaukaskatti af útleigu skíðabúnaðar, bolta o.þ.h.
III.
Íþróttafélög skulu – eins og aðrir aðilar sem hafa með höndum starfsemi sem fellur undir 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga – greiða virðisaukaskatt í ríkissjóð af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota eins og nánar er ákveðið í reglugerð nr. 562/1989. Reglugerð þessi er sett með stoð í 2. mgr. 3. gr. virðisaukaskattslaga, en þar er fjármálaráðherra heimilað að ákveða með hliðsjón af samkeppnisaðstæðum að atvinnufyrirtæki, félög o.fl. greiði virðisaukaskatt af skattskyldum vörum og þjónustu þegar vara er framleidd eða þjónusta innt af hendi eingöngu til eigin nota.
Eftirtalin starfsemi er skattskyld samkvæmt fyrrnefndri reglugerð að svo miklu leyti sem hún er í samkeppni við atvinnufyrirtæki.
- Smíði, viðhald og viðgerðir véla, tækja, húsgagna og áhalda í verksmiðju, verkstæði eða starfsstöð.
- Rekstur þvottahúss, prentstofu og mötuneytis.
- Ræsting, ef vinnulaun eru yfir tilteknu marki.
- Þjónusta þar sem krafist er iðnmenntunar.
- Þjónusta sérfræðinga er almennt þjóna atvinnulífinu, önnur en almenn skrifstofuþjónusta.
Vísast nánar um skattskyldu samkvæmt reglugerð þessari til hennar sjálfrar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.