Dagsetning                       Tilvísun
18. október 1995                            700/95

 

Virðisaukaskattur af starfsemi Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns

Vísað er til bréfa yðar, dags. 6. mars og 22. júní 1995, þar sem óskað er álits ríkis-skattstjóra á túlkun yðar á meðferð virðisaukaskatts vegna safnsins.

Í bréfi yðar er vitnað til þess að samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sé starfsemi safna, bókasafna og hliðstæðra menningarstofnana undanþegin skyldu til að innheimta virðisaukaskatt. Síðan er talin upp og skýrð sú starfsemi safnsins sem þér álítið falla undir þetta undanþáguákvæði laganna og að lokum sú starfsemi safnsins sem að yðar áliti fellur ekki undir nefnt undanþáguákvæði.

Samkvæmt bréfi yðar er starfsemi safnsins eftirfarandi:

  • Ljósritun úr gögnum í vörslu bókasafnsins sem starfsmenn sinna.
  • Sala á ljósritunarkortum til stúdenta og almennings aðallega til ljósritunar úr gögnum safnsins.
  • Millisafnalán.
  • Útprentun úr lesprentvél.
  • Vanskil á bókum, endurgerð kort, glataðar bækur.
  • Útgáfa og sala bóka. Safninu er skylt að gefa út ýmiss konar rit.
  • Mynddeild.
  • Rekstur mötuneytis fyrir starfsfólk.
  • Sala ýmissa smávara t.d. póstkorta, blýanta, skrifblokka og disklinga.
  • Veitingarekstur.
  • Fjölföldunarstofa.
  • Bókbands- og viðgerðarstofa.

Í lok bréfs yðar segir:

“Samkvæmt bréfi ríkisskattstjóra, dags. 3. apríl 1990, til Landsbókasafns Íslands, Hverfisgötu, kemur fram að starfsemi bókbandsstofu er virðisaukaskattsskyld, þar sem hún geti ekki talist vera nauðsynlegur þáttur í starfsemi bókasafna. Við bendum hins vegar á, að sú starfsemi sem fer fram á bókbands- og viðgerðarstofu er tvíþætt. Í fyrsta lagi viðgerð á rita- og bókakosti safnsins og í öðru lagi bókband. Síðari þátturinn í starfsemi bókbandsstofu væri að hluta til hægt að kaupa af öðrum aðilum og er það einnig gert. Hins vegar eru þær bækur, sem eru mjög vandmeðfarnar og verðmætar bundnar inn í safninu. Teljum við að nauðsynlegt sé að svo verði áfram. Farið er því fram á að okkur verði heimilað að taka upp skráningu á vinnutíma í bókbands- og viðgerðarstofu. Skráður verði vinnutími sem fer í viðgerð á ritum bókasafnsins og jafnframt sá vinnutími, sem fer í að binda inn utan safnsins. Hins vegar að skráður verði vinnutími, sem fer í vinnu við bókband, sem hægt væri að kaupa utan safnsins. Virðisaukaskattur verði greiddur af launum starfsfólks í bókbands- og viðgerðarstofu í hlutfalli við þessa vinnutímaskráningu.”

Til svars erindinu skal fyrst tekið fram að opinberum aðilum er aðeins skylt að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð að því leyti sem þeir selja vörur eða virðisaukaskattsskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Í reglugerð nr. 248/1990, er kveðið nánar á um skattskylda starfsemi opinberra aðila. Samkvæmt 3. gr. þeirrar reglugerðar skulu fyrirtæki ríkis og sveitarfélaga, stofnanir þeirra eða þjónustudeildir, sem hafa það að meginmarkmiði að framleiða vörur eða inna af hendi þjónustu til eigin nota greiða virðisaukaskatt af starfsemi sinni að því leyti sem hún er rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Auk þess ber opinberum aðilum sem hafa iðnaðarmenn í sinni þjónustu að greiða virðisaukaskatt af störfum þeirra, ef þau eru unnin í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 7. tölul. 4. gr. sömu reglugerðar.

Samkvæmt framansögðu er eftirtalin starfsemi að mati ríkisskattstjóra undanþegin virðisaukaskattsskyldu:

  • Millisafnalán
  • Útprentun úr lesprentvél (filmur).
  • Vanskil á bókum, endurgerð kort, glataðar bækur.

Eftirtalin starfsemi er hins vegar virðisaukaskattsskyld með þeim fyrirvörum sem að neðan getur:

  • Rekstur mötuneytis fyrir starfsfólk.
  • Bókbands- og viðgerðarstofa.
  • Útgáfa og sala bóka.
  • Mynddeild.
  • Ýmiss konar fjölföldun.
  • Veitingarekstur.
  • Sala ýmissa smávara t.d. póstkorta, blýanta, skrifblokka og disklinga.

Rekstur mötuneytis fyrir starfsfólk

Rekstur mötuneytis fyrir starfsfólk er virðisaukaskattsskyld starfsemi. Einu mötuneytin sem eru undanþegin skráningarskyldu eru skólamötuneyti, sbr. 4. tölul. 4. gr. virðisaukaskattslaga.

Bókbands- og viðgerðarstofa

Samkvæmt upplýsingum sem embætti ríkisskattstjóra hefur aflað er sú þjónusta sem innt er af hendi á viðgerðarstofu Landsbókasafns Íslands fáanleg hjá starfandi einkafyrirtæki. Starfsemin telst því virðisaukaskattsskyld að því leyti sem lagaboð eða önnur skýr stjórnvaldsfyrirmæli með lagastoð setja viðskiptum við einkaaðila ekki skorður. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 71/1994, um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, er bókasafninu skylt að varðveita handritasöfn þau sem stofnað hefur verið til, svo og að vinna að frekari söfnun og rannsóknum íslenskra handrita og samsvarandi efnis á nýrri miðlun. Samkvæmt 9. gr. sömu laga er safninu heimilt að bjóða út vissa þætti í starfsemi bókbandsstofu. Með gagnályktun má komast að þeirri niðurstöðu að óheimilt sé að “bjóða út” aðra þætti sem væntanlega varða varðveislu eldri handrita; þó að það verði ekki merkt með beinum hætti af lagatexta.

Í bréfi safnsins til ríkisskattstjóra 22. júní s.l. segir:

“Sú starfsemi sem viðgerðarstofa á að sinna eru viðgerðir á ritum þjóðdeildar og handritadeildar. Þorri þeirra rita sem fyrir liggur að gera við eru ritakostur eldri en frá árinu 1900. Meðhöndlun þessara rita og varðveisla meðan á viðgerð stendur skal fara fram undir handleiðslu forstöðumanna þjóðdeildar og handritadeildar. Þessi vinna er nákvæmnisvinna og tímafrek og þörf á faglegu mati forstöðumanna á hinum ýmsu vinnslustigum.”

Jafnframt segir:

“Þessi rit fara ekki úr safninu og meðhöndlun þeirra, hvort sem það eru viðgerðir eða bókband, fer eingöngu fram undir handleiðslu forstöðumanna deilda. Allar viðgerðir og bókband rita handritadeildar verður alltaf að vinna undir handleiðslu forstöðumanns.”

Að mati ríkisskattstjóra er vinna viðgerðarstofu við varðveislu rita ekki virðisauka-skattsskyld liggi fyrir skýrar reglur eða fyrirmæli æðra stjórnvalds um að vinna við þau verði ekki falin einkaaðilum hvort sem sú vinna er unnin innan eða utan safnsins.

Útgáfa og sala bóka

Útgáfa bóka og tímarita er skráningarskyld starfsemi ef útgáfan er talin vera í atvinnuskyni. Við mat á því hvenær útgáfa telst vera í atvinnuskyni er aðallega miðað við það hvort tilgangur starfseminnar sé að skila hagnaði af rekstri eða ekki. Útgáfa telst ekki vera í atvinnuskyni ef tekjur af sölu eru alltaf eða nær alltaf lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til útgáfunnar, þ.m.t. prentkostnaður.

Samkvæmt bréfi yðar er ekki hagnaður af útgáfustarfsemi yðar, enda ekki að henni staðið í atvinnuskyni. Útgáfan er því ekki skráningarskyld.

Mynddeild

Starfsemi mynddeildar er virðisaukaskattsskyld starfsemi samkvæmt meginreglu virðisaukaskattslaga. Mörg atvinnufyrirtæki eru með sambærilega starfsemi og telst starfsemin því rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki.

Ríkisskattstjóri fellst þó á að sá hluti starfsemi mynddeildar sem felst í myndatöku af handritum og dagblöðum á mikrófilmur til varðveislu í safninu og framköllun á míkrófilmum fyrir lesprentvélar sé undanþeginn virðisaukaskattsskyldu sem nauðsynlegur þáttur í að varðveita bóka- og blaðakost safnsins.

Hins vegar er sá hluti starfsemi mynddeildar, sem felst í gerð og sölu litskyggna og ljósmynda af handritum, skjölum og bókum að beiðni viðskiptavina safnsins, virðisaukaskattsskyld starfsemi.

Ljósritun – fjölföldun

Í bréfi yðar kemur fram að ljósritunarþjónusta og fjölföldun sé þáttur í starfsemi safnsins. – Ljósrit úr gögnum í vörslu bókasafnsins sem starfsmenn sinna – sala á ljósritunarkortum til stúdenta og almennings aðallega til ljósritunar úr gögnum safnsins – fjölföldunarstofa.

Ljósritun og fjölföldun er virðisaukaskattsskyld starfsemi samkvæmt meginreglu virðisaukaskattslaga. Ljósritunar- og fjölföldunarþjónusta alls konar er rekin af ýmsum atvinnufyrirtækjum og er því slík þjónusta af safnsins hálfu augljóslega rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Ríkisskattstjóri fellst þó á að ef starfsmenn safnsins ljósrita úr þeim gögnum safnsins sem ekki eru til útlána, þá sé sú þjónusta ekki virðisaukaskattsskyld, enda ekki í samkeppni við atvinnufyrirtæki.

Beðist er velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á svari við fyrirspurn yðar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Jón H. Steingrímsson