Dagsetning Tilvísun
29.janúar 1990 12/90
Virðisaukaskattur af starfsemi mælingastofa.
Vísað er til bréfs yðar; dags. 17. október 1989, þar sem spurt er hvernig háttað verði virðisaukaskattsskilum vegna starfsemi mælingastofa.
Í bréfi yðar segir að með mælingastofu sé átt við þá starfsemi sem felst í því að meistari eða verktaki kemur með lýsingu á verki til mælingamanns sveinafélags sem síðan fer á verkstað eða skoðar teikningu af verki og reiknar út kostnað verksins samkvæmt ákvæðisvinnutaxta. Sá útreikningur er síðan endurskoðaður af sérstökum endurskoðendum hjá meistarafélagi og þá fyrst er mæling afhent meistaranum eða verktakanum gegn greiðslu mælingagjalda til meistarafélags.
Meistari/verktaki greiðir eftirfarandi gjöld við móttöku mælingarinnar:
– Mælingagjald sem rennur til sveinafélags. Meistari dregur gjald þetta frá launum sveinanna við útborgun samkvæmt mælingunni.
– Orlofs- og sjúkrasjóðsgjald sem rennur til sveinafélags.
– Gjald til endurmenntunarsjóðs meistara.
– Endurskoðunargjald sem er vegna útlagðs kostnaðar meistarafélags vegna endurskoðunarinnar.
Til svars erindinu skal tekið fram að mælingastarfsemi (verðútreikningur) eins og henni er lýst hér að framan er virðisaukaskattsskyld starfsemi. Hins vegar verður ekki talið að hér sé um að ræða sjálfstæða atvinnustarfsemi sveinafélags eða meistarafélags í skilningi laga um virðisaukaskatt. Þar af leiðandi innheimta þessir aðilar ekki virðisaukaskatt af ofangreindum gjöldum.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.