Dagsetning Tilvísun
4. feb. 1991 231/91
Virðisaukaskattur af starfsemi Námsgagnastofnunar.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 10. janúar 1990, og fundar með fulltrúum yðar um ofangreint málefni.
Ríkisstofnanir og fyrirtæki í eigu ríkissjóðs eru skyld til að innheimta og skila virðisaukaskatti að því leyti sem þessir aðilar selja vöru og skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt (vskl.). Ríkisskattstjóri lítur svo á að bæði sala Námsgagnastofnunar á námsgögnum í skólavörubúð og afhending námsganga til eignar eða fullra umráða til grunnskóla og annarra sé í samkeppni við atvinnufyrirtæki í skilningi virðisaukaskattslaga. Samkvæmt því ber stofnuninni að greiða virðisaukaskatt bæði af sölu í versluninni og af andvirði námsgagna sem afhent eru grunnskólum til eignar og fullra umráða á reiknuðu verði. Tekið skal fram að sala eða afhending bóka á íslensku telst ekki til skattskyldrar veltu, sbr. 10. tölul. l. mgr. 12. gr. vskl.
Um skattverð (það verð sem virðisaukaskattur reiknast af) vísast til reglna III. kafla vskl.
Að áliti ríkisskattstjóra er starfsemi fræðslumyndadeildar Námsgagnastofnunar undanþegin virðisaukaskatti skv. 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. vskl. (starfsemi safna), enda munu myndbönd o.fl. einungis lánuð til skóla.
Stofnunin má einungis telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum sem eingöngu varða sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu, sbr. 4. mgr. 16. gr. vskl. Þannig getur stofnunin talið til innskatts þann virðisaukaskatt sem hún greiðir vegna framleiðslu námsgagna sem útskatti er skilað af (þ.m.t. vegna bóka á íslensku). Stofnunin getur ekki talið til innskatts virðisaukaskatt sem hún greiðir vegna yfirstjórnar, kennslumiðstöðvar eða fræðslumyndadeildar.
Ákvæði í reglugerð nr. 530/1989 um skiptingu innskatts vegna blandaðrar starfsemi taka ekki til opinberra stofnana.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.