Dagsetning Tilvísun
23. ágúst 1993 517/93
Virðisaukaskattur af starfsemi opinberra aðila
Vísað er til bréfs yðar, dags. 25. maí 1993, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvernig Fiskistofa skuli fara með virðisaukaskatt af útseldri vinnu sérfræðinga, námskeiðum sem gæðastjórnunarsvið Fiskistofu heldur, sölu á handbókum og aðgangi að gagnabanka.
I. Gæðastjórnunarsvið
Ríki bæjar- og sveitarfélögum og stofnunum eða fyrirtækjum þeirra er skylt að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð, að svo miklu leyti sem þessir aðilar selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 4. tölul. l. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt. Að áliti ríkisskattstjóra ber að skilja ákvæði þetta þannig að gjaldtaka ríkisstofnana vegna starfsemi sem þær hafa með höndum í krafti opinbers valds, t.d. eftirlit með vörum, tækjum og framleiðslu, hafi ekki í fór með sér skyldu til að innheimta virðisaukaskatt, enda sé ekki á valdi annars en viðkornandi stofnunar að veita sambærilega þjónustu með sömu réttaráhrifum. Jafnframt felst í ákvæðinu að þjónusta sem opinber stofnun veitir án þess að henni sé það skylt samkvæmt lögum er ekki skattskyld nema sambærileg þjónusta sé einnig veitt af atvinnufyrirtækjum.
Fiskistofa hefur með höndum lögboðið eftirlit með meðferð fisks og framleiðslu sjávarafurða sbr. 2. gr. laga nr. 36/1992 eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 92/1992. Með vísan til framangreinds er það álit ríkisskattstjóra að útseld vinna sérfræðinga stofnunarinnar í gæðastjórnun, við að hrinda í framkvæmd stefnu hins opinbera hvað varðar gæðaeftirlit í sjávarútvegsfyrirtækjum, útseld vinna eftirlitsmanns, námskeiðahald til að koma stefnu hins opinbera um gæðaeftirlit í sjávarútvegi í framkvæmd og sala á handbókum og fræðsluofni í tengslum við stefnumótunina, sé ekki í samkeppni við atvinnufyrirtæki í skilningi virðisaukaskattslaga. Samkvæmt þeirri niðurstöðu ber Fiskistofu ekki að innheimta virðisaukaskatt af þessari starfsemi sinni.
II. Tölvusvið
Þar sem hlutverk Fiskistofu skv. 2. gr. laga nr. 36/1992 er meðal annars fólgið í því að annast söfnun, úrvinnslu og útgáfu upplýsinga á sviði sjávarútvegsmála og um er að ræða upplýsingar sem aðrir hafa ekki haft aðgang að telur ríkisskattsstjóri að sú starfsemi að selja aðgang að gagnabanka Fiskistofu geti ekki orðið í samkeppni við atvinnufyrirtæki í skilningi virðisaukaskattslaga og beri Fiskistofu því ekki að innheimta virðisaukaskatt af sölu aðgangs að gagnabankanum.
Varðandi úrvinnslu og sérstaka uppsetningu á gögnum, sem Fiskistofa safnar, er rétt að taka sérstaklega fram að þó starfsmenn Fiskistofu séu betur í stakk búnir en aðrir að sinna þessari þjónustu þá undanþiggur það eitt ekki útselda vinnu þeirra frá virðisaukaskattsskyldu. Innheimta ber virðisaukaskatt af endurgjaldi fyrir útselda vinnu ef um er að ræða sams konar þjónustu og kaupa má af atvinnufyrirtækjum. Nemi samtals sala skattskyldrar vöru eða þjónustu minna en kr. 185.200,- á ári (miðað við byggingarvísitölu l. janúar 1993) er stofnunin þó undanþegin skattskyldu.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Árni Harðarson.