Dagsetning Tilvísun
10. janúar 1996 709/96
Virðisaukaskattur af starfsemi Ríkisendurskoðunar.
Erindi bréfs þessa eru þær efnisbreytingar er gerðar voru á reglugerð nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, með reglugerð nr. 601/1995. Breytingar þessar hafa áhrif á virðisaukaskattsskil Ríkisendurskoðunar.
Í bréfi ríkisskattstjóra til Ríkisendurskoðunar þann 18. ágúst 1993 (nr. 515/1993) var starfsemi hennar talin vera í samkeppni við atvinnufyrirtæki í skilningi reglugerðar 3. gr. laga nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, og bæri því stofnuninni að innheimta virðisaukaskatt af sölu á þjónustu sinni.
Starfsemi Ríkisendurskoðunar er sala á endurskoðunarþjónustu við ríkisstofnanir, ríkisfyrirtæki og þá sjóði sem reknir eru á ábyrgð ríkissjóðs eða ríkissjóður á helming í eða meira.
Með reglugerð nr. 601/1995, frá 20. nóvember sl., var m.a. ákvæði 6. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, breytt á þann veg að ýmis lögbundin starfsemi opinberra aðila telst nú ekki rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Hér er um að ræða lögbundna starfsemi þegar annars vegar öðrum aðilum er ekki heimilt að veita sambærilega þjónustu með sömu réttaráhrifum og hins vegar þegar viðkomandi þjónusta beinist eingöngu að öðrum opinberum aðilum. Það er að segja að þjónusta verði ekki veitt af atvinnufyrirtækjum nema í umboði viðkomandi opinbers aðila og að því tilskyldu að virðisaukaskattur af viðkomandi vinnu og þjónustu fáist endurgreiddur samkvæmt 12. gr. reglugerðarinnar.
Þykir nú ljóst að framangreind þjónusta Ríkisendurskoðunar telst ekki rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki í skilningi reglugerðar nr. 248/1990 með fyrrnefndum breytingum. Enda er hér um að ræða lögbundna starfsemi sem fellur undir framangreint ákvæði reglugerðar nr. 248/1990, þar sem starfsemin beinist eingöngu að opinberum aðilum, þjónustan verður einungis veitt af atvinnufyrirtækjum í umboði hennar og virðisaukaskattur af viðkomandi þjónustu fæst endurgreiddur samkvæmt 12. gr. sömu reglugerðar.
Niðurstaða ríkisskattstjóra er því að þjónusta Ríkisendurskoðunar falli utan skattskyldusviðs virðisaukaskattslaga frá gildistöku reglugerðar nr. 601/1995 sem var 20. nóvember sl.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.