Dagsetning Tilvísun
4. feb. 1991 233/91
Virðisaukaskattur af starfsemi ríkisstofnunar.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 15. janúar 1990, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvernig Hollustuvernd ríkisins skuli fara með virðisaukaskatt vegna starfsemi sinnar.
Til svars erindinu skal tekið fram að ríki, bæjar- og sveitarfélögum og stofnunum eða fyrirtækjum þeirra er skylt að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð, að svo miklu leyti sem þessir aðilar selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 4. tölul. l. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt. Að áliti ríkisskattstjóra ber að skilja ákvæði þetta þannig að gjaldtaka ríkisstofnana vegna starfsemi sem þær hafa með höndum í krafti opinbers valds hafi ekki í för með sér skyldu til að innheimta virðisaukaskatt, enda er þá ekki á valdi annars en viðkomandi stofnunar að veita sambærilega þjónustu með sömu réttaráhrifum. Jafnframt felst í ákvæðinu að þjónusta sem opinber stofnun veitir án þess að henni sé það skylt samkvæmt lögum er ekki skattskyld nema sambærileg þjónusta sé einnig veitt af atvinnufyrirtækjum.
Að áliti ríkisskattstjóra er lögbundið eftirlit og rannsóknir Hollustuverndar ríkisins ekki í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Samkvæmt því ber stofnuninni ekki að innheimta virðisaukaskatt vegna slíkrar starfsemi. Önnur þjónustustarfsemi stofnunarinnar kann hins vegar að vera virðisaukaskattsskyld eftir almennum reglum um sölu þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, þ.e. ef sambærileg þjónusta er fáanleg hjá slíkum fyrirtækjum.
Fram kemur í erindinu að stofnunin gefur út og selur fræðsluefni. Að áliti ríkisskattstjóra er öll útgáfustarfsemi og önnur vörusala opinberra stofnana skráningarskyld (skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt) að því leyti sem hún er í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Við mat á því hvenær starfsemi af þessu tagi telst vera sambærileg við starfsemi atvinnufyrirtækja – og þar af leiðandi skráningarskyld – er aðallega miðað við hvort tilgangur starfseminnar sé að skila hagnaði af rekstri. Skráningarskylda er ekki talin vera fyrir hendi ef tekjur af starfsemi eru alltaf eða nær alltaf lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar.
Tekið skal fram að þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 172.300 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu l. janúar 1991) eru undanþegnir skattskyldu.
Opinberar stofnanir mega einungis telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum sem eingöngu varða sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu, sbr. 4. mgr. 16. gr. virðisaukaskattslaga. Þannig getur stofnunin aðeins talið til innskatts þann virðisaukaskatt sem hún greiðir vegna beins kostnaðar við skattskylda sölu. Ákvæði í reglugerð nr. 530/1989 um skiptingu innskatts vegna blandaðrar starfsemi. taka ekki til opinberra stofnana.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.