Dagsetning                       Tilvísun
4. feb. 1991                             235/91

 

Virðisaukaskattur af starfsemi ríkisstofnunar.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 17. nóvember 1989 þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvernig Ríkismat sjávarafurða skuli fara með virðisaukaskatt af þjónustugjöldum sem stofnunin innheimtir.

Til svars erindinu skal tekið fram að ríki, bæjar- og sveitarfélögum og stofnunum eða fyrirtækjum þeirra er skylt að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð, að svo miklu leyti sem þessir aðilar selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 4. tölul. l. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt. Að áliti ríkisskattstjóra ber að skilja ákvæði þetta þannig að gjaldtaka ríkisstofnana vegna starfsemi sem þær hafa með höndum í krafti opinbers valds, t.d. eftirlit með vörum, tækjum eða framleiðslu, hafi ekki í för með sér skyldu til að innheimta virðisaukaskatt, enda er þá ekki á valdi annars en viðkomandi stofnunar að veita sambærilega þjónustu með sömu réttaráhrifum. Jafnframt felst í ákvæðinu að þjónusta sem opinber stofnun veitir án þess að henni sé það skylt samkvæmt lögum er ekki skattskyld nema sambærileg þjónusta sé einnig veitt af atvinnufyrirtækjum.

Ríkismat sjávarafurða hefur með höndum lögboðið eftirlit með fiski sem veiddur er úr sjó til manneldis, sbr. l. gr. laga nr. 53/1984 eins og henni var breytt með l. gr. laga nr. 83/1986. Með vísan til framangreinds er það álit ríkisskattstjóra að þessi starfsemi stofnunarinnar sé ekki í samkeppni við atvinnufyrirtæki í skilningi virðisaukaskattslaga. Samkvæmt þeirri niðurstöðu ber henni ekki að innheimta virðisaukaskatt af gjaldtöku fyrir hæfnisvottorð og vinnsluleyfi.

Innheimta ber virðisaukaskatt af endurgjaldi fyrir útselda vinnu ef um er að ræða samskonar þjónustu og kaupa má af atvinnufyrirtækjum. Nemi samtals sala skattskyldrar vöru eða þjónustu minna en 172.300 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu l. janúar 1991) er stofnunin þó undanþeginn skattskyldu.

Opinberar stofnanir mega einungis telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum sem eingöngu varða sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu, sbr. 4. mgr. 16. gr. virðisaukaskattslaga. Þannig getur stofnunin einungis talið til innskatts þann virðisaukaskatt sem hún greiðir vegna beins kostnaðar við skattskylda sölu. Ákvæði í reglugerð nr. 530/1989 um skiptingu innskatts vegna blandaðrar starfsemi taka ekki til opinberra stofnana.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.