Dagsetning Tilvísun
19. desember 1991 372/91
Virðisaukaskattur af starfsemi ríkisstofnunar.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 28. október sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á meðferð virðisaukaskatts vegna sérverkefna sem Náttúrufræðistofnun Íslands vinnur fyrir ríkisstofnanir og sveitarfélög.
Til svars erindinu skal tekið fram að ríki, bæjar- og sveitarfélögum og stofnunum eða fyrirtækjum þeirra er skylt að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð, að svo miklu leyti sem þessir aðilar selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt. Í ákvæðinu felst m.a. að opinber stofnun er ekki virðisaukaskattsskyld vegna sölu á sérfræðiþjónustu o.s.frv. nema sambærileg þjónusta sé einnig veitt af atvinnufyrirtækjum.
Innheimta ber virðisaukaskatt af endurgjaldi fyrir útselda vinnu ef um er að ræða sams konar þjónustu og hérlend atvinnufyrirtæki selja. Nemi samtals sala skattskyldrar vöru eða þjónustu minna en 172.300 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu 1. janúar 1991) er seljandi þó undanþeginn skyldu til að innheimta og skila skatti.
Um innskatt virðisaukaskattsskyldra opinberra stofnanna fer skv. 10. gr. reglugerðar nr. 81/1991, um innskatt.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.