Dagsetning Tilvísun
31. janúar 1992 381/92
Virðisaukaskattur af starfsemi ríkisstofnunar.
Með bréfi yðar, dags. 26. ágúst 1991, er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort einhver verkefni Samskiptastöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra beri virðisaukaskatt.
Starfseminni er lýst þannig að hún felist í
a) rannsóknum á íslensku táknmáli,
b) kennslu táknmáls,
c) táknmálstúlkun,
d) annarri þjónustu, svo sem ráðgjöf við stofnanir, skóla og vinnustaði þar sem heyrnarlausir dvelja eða vinna,
e) þýðingu barnabóka á táknmál, sem teknar verða upp á myndbönd og seldar á kostnaðarverði,
f) framleiðslu og sölu á námsefni í táknmáli á myndböndum, í bókum og ritlingum.
Til svars erindinu tekur ríkisskattstjóri fram að ríkisstofnunum er aðeins skylt að innheimta og skila virðisaukaskatti ef;
- þær selja vöru eða þjónustu sem skattskyld er samkvæmt lögum um virðisaukaskatt
og
- sala þessi sé í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Við mat þess hvort þetta atriði eigi við starfsemina er aðallega miðað við hvort stefnt sé að hagnaði af sölu viðkomandi vöru eða þjónustu. Skylda til að innheimta og skila skatti af sölu vöru og skattskyldrar þjónustu er ekki talin vera fyrir hendi ef tekjur af sölunni eru alltaf eða nær alltaf lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar.
Ekki kemur fram í erindinu hvort gjald er tekið fyrir þjónustu sem tilgreind er í stafliðum a til d hér að framan og hvernig því er þá hagað. Fram kemur að stofnunin selur námsefni o.fl., sbr. stafliði e og f. Slík vara er í eðli sínu skattskyld en um skyldu til að innheimta og skila skatti fer samkvæmt þeim sjónarmiðum sem reifuð eru í 2 hér að framan.
Til fróðleiks fylgir hjálagt bréf ríkisskattstjóra (63/90), dags. 7. maí 1990, um starfsemi táknmálstúlka. Þar kemur fram að táknmálstúlkun er almennt talin skattskyld, þó ekki þegar slík þjónusta er veitt í tengslum við vitjun hjá lækni eða vegna félagslegrar þjónustu.
Að svo stöddu og án frekari upplýsinga er ekki unnt að svara erindi yðar nánar.
Virðingarfyllst,
f’.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.