Dagsetning                     Tilvísun
19. feb. 1990                               27/90

 

Virðisaukaskattur af starfsemi sérleyfishafa.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 9. október sl., varðandi virðisaukaskatt af starfsemi sérleyfishafa.

Í bréfinu kemur réttilega fram að fólksflutningar eru undanþegnir virðisaukaskatti. sbr. 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Á hinn bóginn eru vöruflutningar virðisaukaskattsskyldir. Taki fyrirtæki yðar að sér – samhliða fólksflutningum – flutning á pósti, bögglum eða öðrum vörum gegn sérstöku gjaldi ber því að innheimta virðisaukaskatt af endurgjaldi fyrir þá þjónustu. Athygli yðar skal vakin á reglum um frádrátt virðisaukaskatts af aðföngum þegar svo hagar til að starfsemi fyrirtækis er „blönduð“, þ.e. annars vegar starfsemi sem skattskyld er til virðisaukaskatts og hins vegar starfsemi sem er undanþegin virðisaukaskatti. Gerð er grein fyrir þessum reglum í leiðbeiningariti ríkisskattstjóra um virðisaukaskatt, útgefnu í desember sl. , á bls. 31 og áfram.

Sérleyfishafa ber að greiða virðisaukaskatt af viðhalds – og viðgerðarvinnu sem hann innir af hendi með starfsmönnum sinum á verkstæði eða starfsstöð. Þetta á við hvort sem hann rekur sérstakt viðgerðarverkstæði í þessu skyni eða ekki. Reglur um skattverð – þann stofn sem virðisaukaskattur er reiknaður af – eru hins vegar mismunandi eftir því hvort viðhald og viðgerðir fara fram á sérstöku verkstæði eða ekki. Vísast nánar um þetta atriði til 3. gr. reglugerðar nr. 562/1989 um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana.

Er yður bent á að snúa yður til viðkomandi skattstjóra um nánari afmörkun skattverðs í þessu sambandi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.

 

Hjálagt:

Leiðbeiningarit RSK um Virðisaukaskatt. /Sérprentun reglug. 562/1989