Dagsetning Tilvísun
11. júní 1990 96/90
Virðisaukaskattur af starfsemi skíðaskóla.
Vísað er til erindis yðar, dags. 4. maí sl., um virðisaukaskatt af starfsemi skíðaskóla yðar. Ríkisskattstjóra hefur jafnframt borist bréf menntamálaráðuneytisins um sama efni, dags. 23. apríl sl., ásamt afriti af bréfi þess til fjármálaráðuneytisins, dags. 18. apríl sl., og ljósriti af þeim kafla aðalnámsskrár grunnskóla sem fjallar um íþróttir.
Til svars erindinu skal tekið fram að rekstur skóla og menntastofnana er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga kemur fram að með orðalaginu „rekstur skóla og menntastofnana“ sé átt við alla venjulega skóla- og háskólakennslu, faglega menntun, endurmenntun,’og aðra kennslu- og menntastarfsemi. Jafnframt er tekið fram að við mat á því hvort nám teljist skattfrjálst sé eðlilegt að hafa hliðsjón af því hvort boðið er upp á það í hinu almenna skólakerfi eða ekki. Hafi námsgreinin unnið sér fastan sess í hinu almenna skólakerfi ber að lita svo á að skóla- eða námskeiðsgjöld séu skattfrjáls.
Í aðalnámsskrá grunnskóla kemur fram að vetraríþróttir, þ.m.t. skíðaíþróttir, eru meðal námsþátta í íþróttakennslu i grunnskóla. Í bréfi menntamálaráðuneytisins, dags. 18. apríl, kemur fram að ráðuneytið hafi allt frá árinu 1941 staðið fyrir skíðakennslu i skólum og frá árinu 1950 hafi þeirri tilhögun verið komið á að efstu bekkir barnaskóla og gagnfræðaskóla fengju eins og tveggja daga skíðaferðir á vetri með skíðakennslu.
Með vísan til framanritaðs er það álit ríkisskattstjóra að skíðakennsla sé undanþegin virðisaukaskatti skv. 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Þá er fæðissala til nemenda undanþegin, sbr. 4. tölul. 4. gr. laganna. Undanþágan tekur ekki til virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi.
Aðgangseyrir að skíðalyftum er undanþeginn virðisaukaskatti skv. 5. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna. Fólksflutningar eru undanþegnir virðisaukaskatti skv. 6. tölul. sömu málsgreinar.
Rekstur mötuneytis fyrir starfsfólk er skattskyld starfsemi. Þá er önnur fæðissala en til nemenda skattskyld. Sama er að segja um útleigu skíðabúnaðar og verslunarrekstur af öðru tagi.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.